Fjarnám

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:38:03 (1261)

1998-11-18 14:38:03# 123. lþ. 26.4 fundur 221. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er mjög viðmikil fyrirspurn og ég efast um að ég komist yfir að svara henni til fulls á þeim skamma tíma sem ég hef til ráðstöfunar. Það er ljóst að það hefur orðið bylting í fjarnámskennslu hér á landi og við erum rétt að hefja það ferli og mikið á eftir að gerast núna á þessum vetri og næstu mánuðum.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvaða skólar á framhalds- og háskólastigi bjóða fjarnám? Á framhaldsskólastigi býður Verkmenntaskólinn á Akureyri fjarnám. Skólinn hefur rekið fjarkennslu samfellt frá vorönn 1994. Á vorönn 1998 voru 84 áfangar í boði. Á haustönn 1998 býður einnig Fjölbrautaskólinn við Ármúla þrjá áfanga á sviði heilbrigðisfræða og sér Verkmenntaskólinn á Akureyri um umsýslu námsins. Menntmrn. samdi við Verkmenntaskólann á Akureyri á sínum tíma um að hann yrði tilraunaskóli á þessu sviði og þeir samningar renna út núna um áramótin.

Á háskólastigi býður Kennaraháskóli Íslands fjarnám fyrir verðandi leikskólakennara og grunnskólakennara. Háskóli Íslands býður á haustönn 1998 upp á fjarnám í einu námskeiði á vegum jarð- og landafræðiskorar. Háskólinn á Akureyri býður á þessu hausti upp á fjarnám í einstökum námskeiðum í hjúkrunarfræði og rekstrarfræði. Þá hóf Viðskiptaháskólinn í Reykjavík í haust tilraunakennslu með einn hóp í tölvunámi og skólarnir eiga samstarf við fræðslunet Austurlands. Samvinnuháskólinn á Bifröst og Bændaskólinn á Hvanneyri eru að undirbúa fjarkennslu sem hefst núna um áramótin eða jafnvel næstu mánaðamót.

Í öðru lagi er spurt hvaða kröfur séu gerðar til þeirra sem hyggjast stunda fjarnám á Íslandi. Gerðar eru sömu kröfur um undirbúningsnám og til þeirra sem annars hyggja á nám í viðkomandi skóla. Að auki er þess krafist að viðkomandi hafi aðgang að nettengdri tölvu.

Í þriðja lagi er spurt hvaða námsstigi sé hægt að ljúka með fjarnámi á Íslandi og hvaða prófgráður það veiti. Eins og stendur er hægt að ljúka almennu bóknámi á framhaldsskólastigi með stúdentsprófi og B.Ed.-námi frá leikskólaskor og grunnskólaskor Kennaraháskóla Íslands.

Í fjórða lagi er spurt: Hverjir sækjast helst eftir fjarnámi og hvernig er skipting nemenda eftir aldri, kyni og búsetu? Sitthvað ræður því að nemendur velja fjarnám. Í könnun Verkmenntaskólans á Akureyri á haustönn 1997 og vorönn 1998 kemur fram að 16% völdu fjarnámið á haustönn 1997 vegna búsetu en 47% á vorönn 1998. Á haustönn 1997 nefndu 21% vinnu en á vorönn 17%. Um fjórðungur tilgreinir á báðum önnum að fjarnám hafi orðið fyrir valinu vegna þess að viðkomandi þurfi að ráða tíma sínum. Svo eru alltaf einhverjir sem velja fjarnám vegna þess að þeim finnst það skemmtilegur kostur. Sennilega eru svipaðar ástæður hjá nemendum í fjarnámi annarra skóla.

Á vorönn 1998 voru flestir nemendur í fjarnámi Verkmenntaskólans á Akureyri á aldrinum 20--40 ára. Konur voru 66% þátttakenda á vorönn 1998, en 53% á vorönn 1997. Karlar voru hins vegar 34% vorið 1998, en 47% 1997.

Nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri búa mjög víða. Á vorönn 1998 voru alls 82 prófstaðir, 56 innan lands og 26 erlendis. Á vorönn 1997 voru prófstaðir 51, 41 innan lands og 10 erlendis. Á haustönn 1997 voru prófstaðir alls 54, 45 innan lands og 9 erlendis. Á vorönn 1998 voru nemendur austast í Taílandi, vestast í Kaliforníu í Bandaríkjunum og syðst í Namibíu. Á þessu sést að búseta nemenda er talsvert dreifð.

Í fjarnámi í leikskólaskor Kennaraháskóla Íslands, sem hófst vorið 1998, er meðalaldur nemenda 29 ár. Alls voru teknir inn 24 nemendur, 23 konur og 1 karl, og koma þeir úr öllum landshlutum en tæpur helmingur kemur af Reykjavíkursvæðinu.

Í fjarnámi í grunnskólaskor Kennaraháskóla Íslands eru alls 123 nemendur, 108 konur og 15 karlar. Meðalaldurinn er 34 ár. Nemendur koma af öllum landsvæðum en flestir búa á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Suðurlandi. Erlendis búa 6 nemendur.

Í námskeiði Háskóla Íslands í inngangi að ferðamálafræði eru um 25 nemendur á Ísafirði, Neskaupstað, Egilsstöðum, Hornafirði og Reykjanesi. Að auki tekur álíka stór hópur þátt í námskeiðinu í Reykjavík.

Í fjarnámi Háskólans á Akureyri í hjúkrunarfræði eru 9 konur frá Ísafirði og nágrenni. Þær eru á aldrinum 22 til 34 ára. Þá eru 17 nemendur í fjarnámi í rekstrarfræði, sex á Austurlandi, fimm konur og einn karl, og ellefu á Akureyri, sex konur og fimm karlar. Þessir nemendur eru á aldrinum 27--43 ára.

Í tilraunahópi Viðskiptaháskólans í Reykjavík byrjuðu 17 nemendur, fjórar konur og þrettán karlmenn. Um helmingur nemenda er milli fertugs og fimmtugs og flestir búa á Austurlandi enda er verkefnið unnið í samstarfi við fræðslunet Austurlands. Brottfall í náminu er svipað því sem gerist í staðbundnu námi.