Fjarnám

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:50:56 (1268)

1998-11-18 14:50:56# 123. lþ. 26.4 fundur 221. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir skýr og greinargóð svör. Fyrirspurnin er að vísu yfirgripsmikil, ég hygg að hann hafi ekki getað svarað fyrirspurninni til hlítar á þeim tíma sem er varið til slíkra spurninga. Þó kemur í ljós hve miklir möguleikar eru að verða í fjarnámi á Íslandi og er mjög ánægjulegt til þess að vita hve framþróunin hefur verið mikil hér á landi. Hún er í raun byltingarkennd og fólk hefur ótrúlega möguleika á símenntun vítt og breitt um heiminn eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra.

Ég gleðst líka yfir því hve þingmenn sýna þessu máli mikinn áhuga. Það er eðlilegt þar sem þetta tengist öllum landshlutum á Íslandi og ég hygg að í nánast öllum landshlutum séu menn í það minnsta farnir að huga að fjarnámi. Það er auðvitað gott.

Ég minni á það sem ég sagði í upphafi máls míns að fjarnám kemur auðvitað ekki í stað hinna hefðbundnu skóla. Það tekur líka sinn tíma, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði, að læra á þessa nýju tækni. Það tekur nemendur sinn tíma. Ég veit dæmi þess að þessari tækni hafi verið beitt án þess að hún skilaði þeim árangri sem vænst var, m.a. vegna þess að eftir á að þróa þessa tækni þannig að nemendur læri að nýta sér hana.

Að lokum þetta. Við getum glaðst yfir því að þróunin er í hárrétta átt á Íslandi og það er gaman til þess að vita að einmitt á morgun verður opnuð ein slík stöð við Samvinnuháskólann að Bifröst þar sem menn geta lokið háskólanámi, þ.e. bætt við sig háskólanámi í fjarnámi.