Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:03:21 (1274)

1998-11-18 15:03:21# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:03]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Á síðasta ári lét Byggðastofnun gera mjög ítarlega könnun á viðhorfi landsbyggðarfólks til búsetuskilyrða. Þar kom fram að víða um land er nokkur óánægja með afþreyingarmöguleika fólks. Auðvitað er eðlilegt að á hinum fámennari stöðum sé afþreying fábrotnari en á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólksfjöldinn er. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli fyrir landsbyggðina að búa við góð skilyrði hvað varðar móttöku útvarps og sjónvarp en á því er mikill misbrestur og það er með ólíkindum í lok 20. aldar að koma á t.d. stað eins og Borgarnes sem er tæplega 2 þús. manna bær, nokkra tugi kílómetra frá Reykjavík, þar sem víða í bænum er ekki hægt að hlusta skammlaust á Ríkisútvarpið og sama gildir um sveitirnar þar fyrir vestan. Ríkisútvarpið hefur trassað það allt of lengi og ekki haft sem forgangsverkefni að bæta úr þessu en ég vil fagna því sem fram kom í svari hæstv. menntmrh. og sýnist að nú horfi mál til betri vegar. Ég treysti hæstv. ráðherra sem er vaskur maður til að fylgja þessu máli vel eftir. Mér finnst ástæða í leiðinni til að þakka hæstv. ráðherra fyrir framgöngu hans varðandi bætta útsendingu útvarps til fiskimiðanna fyrir Vesturlandi með nýjum langbylgjusendi frá Gufuskálum sem sjómenn eru afskaplega ánægðir með.