Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:05:43 (1276)

1998-11-18 15:05:43# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir góð svör og einnig þakka ég hv. þm. fyrir umræðuna.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að samningaviðræður eru uppi við Landssímann um dreifingu á útvarpsefni og sjónvarpsefni. Ljósleiðarinn sem slíkur er mjög góður og vel til þess fallinn að dreifa slíku efni en það er hins vegar ekki nóg því dreifðari svæði eru ekki í sambandi við ljósleiðara og því þarf að ráða bót á málum þeirra með endurvörpum og slíku.

Ég vil fagna upplýsingum menntmrh. um áform um uppbyggingu senda og endurvarpa sem komu fram í svari hans. Einnig kom fram hjá hæstv. ráðherra að það er forgangsverkefni hjá Ríkisútvarpinu að byggja upp endurvarpskerfi á norðanverðu Snæfellsnesi og kostnaðaráætlun um það er upp á um 30 millj. Auðvitað ber að fagna því en hins vegar bendi ég á það eins og reyndar hefur komið fram í máli einstakra hv. þm. að afar slæmar aðstæður eru í dreifbýlli svæðum í kjördæminu og hér hafa verið nefnd einstök svæði, Hnappadalurinn, Húsafellssvæðið, jafnvel Borgarnes. Ég vil einnig bæta við Dalasýslunni. Þar hafa einnig komið fram ítrekaðar kvartanir um þetta. Hins vegar er ljóst að málin þokast áfram þótt kannski fari of hægt. En ég trúi því og veit reyndar að hæstv. menntmrh. mun beita sér af fullu afli til að tryggja öllum landsmönnum sömu aðstæður til að njóta útsendinga Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins þannig að það standi undir því sem vera ber, að það sé allra landsmanna.