Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:07:35 (1277)

1998-11-18 15:07:35# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka umræðurnar og ítreka það sem ég hef áður sagt að að sjálfsögðu ber Ríkisútvarpinu að hafa það sem markmið að þjóna öllum landsmönnum eins að þessu leyti eins og öðrum. Ég er þeirrar skoðunar að umræður eins og þessar séu gagnlegar til áminningar um það hvar helst þurfi að taka til hendi en ég held líka að þær séu tímanna tákn af því að skoðun mín er sú að þessi tækni eigi eftir að taka svo örum framförum á næstu missirum og árum að við munum standa frammi fyrir allt öðrum kröfum í þessu efni en við gerum núna, bæði að því er símaþjónustu varðar og einnig að því er varðar hljóðvarps- og sjónvarpssendingar. Núna er að koma til sögunnar símkerfi sem er þannig að fyrst leitar síminn að stöðvum á jörðu niðri og síðan fer hann upp í gervitungl og menn geta verið með sama númerið hvar sem er í heiminum og alltaf náð sambandi. Ég er sannfærður um, hvað sem líður ljósleiðurum og kapalkerfum, að þeir tímar séu að koma að gervihnettir verði notaðir í ríkari mæli til að miðla upplýsingum og sinna fjarskiptum og allur almenningur muni geta nýtt sér það í ríkari mæli en áður. Við erum einnig með áform uppi um að koma á laggirnar stafrænum sendingum þar sem tíðnisviðið er notað með allt öðrum hætti. Að öllu þessu þarf að huga, jafnt að koma þessu til allra landsmanna og einnig að nýta sér þá tækni sem fellur best að þessum kröfum hverju sinni. Kröfurnar eru þær að menn hafi 100% þjónustu hvarvetna þar sem þeir eru staddir á landinu og við getum ekki fullnægt þeim kröfum nema með nýjum dreifikerfum og þar eru hnattrænu kerfin og sjónvarpskerfin líklega best fallin til að svara þessum kröfum.