Áhrif hvalveiðibanns

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:30:02 (1289)

1998-11-18 15:30:02# 123. lþ. 26.7 fundur 50. mál: #A áhrif hvalveiðibanns# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessar upplýsingar sem eru mjög mikilsverðar í þá umræðu sem fer fram um nýtingu á lífríkinu. Menn hafa verið að reyna að gera lítið úr efnhagslegu mikilvægi þess að hefja hvalveiðar. Menn hafa verið að reyna að draga í efa að það borgaði sig nokkuð að hefja hvalveiðar. Hvað leiða upplýsingar hæstv. sjútvrh. í ljós?

Í fyrsta lagi að ef vel tekst til um hvalveiðarnar gætu veiðarnar sjálfar skapað um einn og hálfan milljarð í útflutningstekjur og sjálfsagt er þetta varlega áætlað. En þetta er ekki aðalatriðið eins og hæstv. ráðherra benti á. Aðalatriðið er auðvitað það hver áhrifin eru af hvalveiðibanni á stöðu annarra nytjastofna. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að áframhaldandi hvalveiðibann gæti haft þau áhrif til lengri tíma litið að langtímaafrakstur þorskstofnsins gæti minnkað um allt að 20%. Algeng veiði á þorski á undanförnum árum hefur legið á bilinu 300 til 350 þús. tonn, varlega áætlað, 20% af því þýða 60--70 þús. tonn á ári.

Ég aflaði mér þeirra upplýsinga hjá Þjóðhagsstofnun í morgun hver áhrifin yrðu á útflutningstekjur okkar Íslendinga ef þorskveiði yrði aukin um 10 þús. tonn. Miðað við fiskverð á árinu 1997 var um að ræða áhrif upp á um 1,2 milljarða króna. Þetta þýðir að hvalveiðibannið getur verið að valda okkur tjóni upp á kannski 7,5--10 milljarða króna á ári fyrir utan það útflutningsverðmæti sem hvalveiðin sjálf mundi skapa okkur. Það sem liggur því fyrir er að það hefur mjög alvarleg áhrif á lífskjör okkar, það er okkur efnahagslega dýrkeypt að hefja ekki hvalveiðar. Það er auðvitað ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Við getum ekki vegna okkar sjálfra og vegna lífskjaranna sem við erum að reyna að bæta í þjóðfélaginu, leyft okkur að hefja ekki hvalveiðar.