Nýtt greiðslumat

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:40:30 (1293)

1998-11-18 15:40:30# 123. lþ. 26.9 fundur 188. mál: #A nýtt greiðslumat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í áfangaskýrslu samráðsnefndar um greiðsluvanda heimilanna frá 1995 er hvatt til þess að félmrh. hafi forgöngu um að gerður verði neyslustaðall fyrir íslensk heimili. Í skýrslu starfshóps um nýtt greiðslumat frá febrúar á þessu ári er ein af tillögum starfshópsins að unnið verði að gerð neysluviðmiðunar um framfærslukostnað heimilanna. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur einnig í vinnu sinni stuðst við ákveðna neysluviðmiðun sem tekur til lágmarksframfærslu en þar er ekki tekið tillit til annarra þátta svo sem viðhalds húsnæðis, menntunar, tómstunda eða húsbúnaðarkaupa. Tvennt vekur þar athygli.

Í fyrsta lagi að um 100 þús. kr. munur er á neysluviðmiðun Ráðgjafarstofu og neyslukönnunar Hagstofu, bæði hjá barnlausum hjónum og hjónum með tvö börn. Þar kemur fram t.d. að að því er varðar barnlaus hjón munar um 100 þús. eða 96 þús. og 102 þús. ef um börn er að ræða. En þar segir til skýringar að um sé að ræða framfærslukostnað heimila í greiðsluerfiðleikum og það sé skýringin og hins vegar hjá Hagstofunni, meðaltalsframfærslukostnað heimila í landinu óháð tekjum, eignum og skuldum.

Í annan stað vekur athygli að í skýrslunni er borin saman þessi lágmarksviðmiðun og 18% greiðslumat í húsbréfakerfinu og viðmiðun við 28% af brúttólaunum í afborgun lána í félagslega kerfinu. Þá kemur í ljós ef við skoðum húsbréfakerfið að það vantar allt upp í 20 þús. kr., 6--20 þús. kr. í tekjur, til þess að hjón geti staðist greiðslumat miðað við 18% af brúttótekjum ef tekjur eru undir 170 þús. kr. Sama kemur fram varðandi félagslega kerfið, þar er miðað við 28% af brúttólaunum í afborgun lána, að þar vantar upp á hjá bæði einstaklingum og hjónum sem eru með nettótekjur á bilinu 72 til 132 þús., frá 16 og upp í 43 þús. í tekjur, til að standa undir slíku greiðslumati. Þetta gæti bent til þess að þrengja þurfi greiðslumatið frá því sem nú er og þar sem í fréttum hefur komið fram að nýtt greiðslumat sé tilbúið fyrir lánveitingar fyrir nýja Íbúðalánasjóðinn þá spyr ég hæstv. ráðherra:

,,1. Hefur verið unnið að gerð ,,neysluviðmiðunar`` um framfærslukostnað heimilanna sem verði grundvöllur í húsnæðiskerfinu fyrir greiðslumat og fjárhagsráðgjöf fyrir heimilin eins og starfshópur um nýtt greiðslumat lagði til í febrúar sl. og hefur þar verið tekið mið af neysluviðmiðun Ráðgjafarstofu heimilanna?

2. Ef ekki verður stuðst við neysluviðmiðun, hvaða forsendur og mat verður lagt til grundvallar við að meta greiðslugetu íbúðakaupenda hjá nýja Íbúðalánasjóðnum?``