Nýtt greiðslumat

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:43:43 (1294)

1998-11-18 15:43:43# 123. lþ. 26.9 fundur 188. mál: #A nýtt greiðslumat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Samningur við lánastofnanir, þ.e. Samband banka og sparisjóða um framkvæmd greiðslumats liggur fyrir og hann verður undirritaður alveg á næstu dögum. Í þessum samningi felst m.a. að Íbúðalánasjóður leggi til forrit um neysluviðmiðun byggt á reynslutölum frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna auk reksturs bíls sem er ekki inni í tölum Ráðgjafarstofunnar. Inn í forritið koma þá tekjur og eignir og skuldir og framfærsluviðmiðun. Það sem eftir er þegar framfærslufé og kostnaður við skuldir hefur verið dreginn frá heildartekjum og þar með töldum væntanlegum vaxtabótum, barnabótum, barnabótaauka og hvers lags tekjum öðrum má afgangurinn ganga til húsnæðiskostnaðar.

[15:45]

Við gerum ráð fyrir því að fyrst um sinn verði hámarkslánin óbreytt og tekju- og eignaviðmið í félagslega kerfinu sömuleiðis, þ.e. 1.540 þús. kr. árstekjur á einstakling, 1.950 þús. kr. hjá hjónum og 257 þús. kr. fyrir hvert barn. Gert er ráð fyrir því að mögulegt sé að hnika frá þessu forriti ef um þunga fjölskyldubyrði er að ræða. En nú verður greiðslumat tvíþætt, þ.e. annars vegar að reikna út greiðslugetu lántakenda miðað við þennan lágmarksframfærslukostnað og hins vegar ráðgjöf frá lánastofnuninni um ákvörðun lántakanda. Sú ráðgjöf er mikilvæg að mínu mati og lýtur að því að lántakanda sé ljóst að hann þarf að taka tillit til ýmissa útgjaldaliða sem fylgja kaupum á íbúð eða rekstri hennar og jafnframt að hann verði að gera ráð fyrir ýmsum öðrum útgjöldum og að með lántökunni sé hann að binda sig og fjölskyldu sína í greiðslum til margra ára. Jafnframt verður náttúrlega að gera lántakanda ljóst að hann ber persónulega ábyrgð á endurgreiðslu lána auk verðtryggingar.

Það er verið að vinna að þessu. Forritið er ekki frágengið og það er verið að prófa að keyra það út á umsóknum sem liggja fyrir og hafa verið afgreiddar. Það er sem sagt ekki búið að klára það. Þessi vinna við útkeyrsluna er svona hálfnuð og endanleg niðurstaða verður metin þegar við sjáum hvernig það kemur út.

Ég held að það sé mikil framför að taka þessa neysluviðmiðun upp því að af brýnustu nauðþurftum þá þarf fjölskyldan fyrst að hafa eitthvað til að borða. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að neysluviðmiðun Ráðgjafarstofunnar er mjög þröng. Hún er reyndar byggð á rauntölum því að það eru ekki nein skot út í loftið hjá Ráðgjafarstofu heldur hefur fólk getað komist af með þessa neyslu. Það eru rauntölur og fólk hefur lifað á þessu kannski ekki í mjög langan tíma en um einhverra ára skeið. Þetta er unnið upp úr búreikningum viðkomandi fólks sem er vel að merkja í fjárþröng og er að reyna að vinna sig út úr skuldabasli. Þá er þetta hægt. En þetta er sannarlega ekki neitt meðaltal af eyðslu landsmanna. Það er rétt að hafa það í huga. Ég held að það sé réttari aðferð að fyrst þarf fólkið að fá að borða, síðan er hægt að fara að hugsa til þess hvað hægt er að veita sér af öðrum lystisemdum eins og húsnæði og/eða meiri eyðslu.