Greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:56:03 (1298)

1998-11-18 15:56:03# 123. lþ. 26.10 fundur 190. mál: #A greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Áður en einstökum liðum í þessari fyrirspurn er svarað er rétt að benda á að í B-hluta stofnunum ríkisins á þessum tíma unnu rúmlega 6.600 einstaklingar. Af þeim fjölda fengu 97, 70 karlar og 27 konur, greidda fasta þóknun fyrir nefndarstörf og 22, 14 karlar og 8 konur, fengu greidda þóknun fyrir tilfallandi nefndarstörf, en í einhverjum tilfellum eru það sömu aðilar og fengu greidda fasta þóknun.

Þessar greiðslur sem hér er verið að spyrja um, námu 0,4% af heildargreiðslum stofnananna. Á þessum tíma voru 113 manns með lokaðan aksturssamning, 105 karlar og 8 konur, en 798 manns, 511 karlar og 287 konur, með opinn aksturssamning. Greiðslur fyrir þetta voru 1,3% af heildargreiðslum stofnananna þannig að hér er verið að tala um sáralítið brot af því sem starfsmannahald þessara stofnana kostar.

Ef ég kem síðan að spurningunum þá er líklegasta skýringin á þessum hlutföllum sú að það eru einkum forstöðumenn, stjórnendur og sérfræðingar sem kallaðir eru til þátttöku í hinum ýmsu nefndum og á þeim stofnunum sem hér er um að ræða, Pósti og síma, Rarik, Ríkisútvarpinu o.s.frv., svo að dæmi séu nefnd, voru það fyrst og fremst karlar sem sinntu slíkum yfirmannsstörfum, þ.e. forstöðumanns-, stjórnenda- eða sérfræðingsstörfum.

Að því er varðar aðra spurninguna þá gilda eflaust sömu röksemdir og nefndar eru í 1. lið að því er varðar fastar akstursgreiðslur með þeirri skýringu þó að fyrir nokkrum árum sagði bíla- og vélanefnd upp öllum aksturssamningum og við endurnýjun þeirra var haft að leiðarljósi að forstöðumenn og stjórnendur skyldu hafa fastan aksturssamning en ekki opinn. Forsendan fyrir því var sú að ekki væri eðlilegt að þeir legðu sjálfir mat á akstursþörf sína í þágu starfsins.

Hvað varðar aðrar akstursgreiðslur þá má leiða líkur að því að konur á þessum stofnunum hafi frekar sinnt störfum sem unnin voru inni á föstum vinnustað en störf karlanna hafi oftar krafist þess að þeir nýttu eigin bíl til að komast á milli vinnustaða. Má gera sér í hugarlund að þar geti verið um að ræða viðgerðarmenn, línumenn og aðra þess háttar starfskrafta sem allir vita að eru enn sem komið er oftar karlkyns en kvenkyns. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er mun hagkvæmara fyrir ríkið að leigja afnot eigin bíls starfsmanns heldur en að kaupa undir hann leigubíl, bílaleigubíl eða eftir atvikum að stofnunin keypti bíl eins og sums staðar hefur verið gert.

Ég hef þá svarað 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar, herra forseti. Að því er varðar 3. liðinn þar sem spurt er um það hvort mér finnist þessi skipting eða framangreind hlutföll eðlileg, þá verð ég að segja að þeirri spurningu er ekki hægt að svara. Skýringarnar eru komnar fram að svo miklu leyti sem hægt er að skýra þennan mun. Auðvitað geri ég ráð fyrir því að allir vildu sjá meiri jöfnuð kynjanna í hinum ýmsu störfum í þjóðfélaginu og þar af leiðandi í þeim nefndum sem hér er um að ræða og í þeim störfum þar sem um er að ræða aksturssamninga. Að öðru leyti er ekki hægt að fella dóma um það hvort hér sé um að ræða eðlileg hlutföll eða ekki. Þessi hlutföll eiga sér þær skýringar sem ég hef rakið. Ég geri ráð fyrir því að þessi hlutföll séu ekki óumbreytanleg og þau muni raskast og ég vænti þess að eftir því sem konum fjölgar, til að mynda í stjórnunar-, sérfræðinga- og öðrum ábyrgðarstörfum, þá muni þau breytast. Við sjáum þess þegar merki í ríkiskerfinu að hlutföll kvenna og karla sem stjórnenda hafa verið að breytast á undanförnum árum.