Greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:05:14 (1302)

1998-11-18 16:05:14# 123. lþ. 26.10 fundur 190. mál: #A greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil benda á það sem ég nefndi áðan að hér er um að ræða agnarlítinn hluta af öllum greiðslum til starfsmanna þessara stofnana. 0,4% heildargreiðslna fyrir nefndalaun, 1,3% vegna akstursgreiðslna. Ég geri mér grein fyrir að þetta skiptir samt máli en menn verða að vara sig á að gera ekki úlfalda úr mýflugu.

Ég held að það sé skynsamlegt að reyna að grafast fyrir um það hver þróunin hefur verið síðan 1995 og 1996, sem þessar tölur eiga við. Ég er alveg sannfærður um að við erum sammála að reyna að efla og auka hlut kvenna í þessum störfum sem um er að ræða. En það er eigi að síður staðreynd að hjá starfsmönnum þessara B-hluta stofnana, t.d. hjá Pósti og síma og Rarik, sem hafa bíla til afnota er mikið um viðgerðarmenn, línumenn og aðra slíka þjónustuaðila sem þurfa að fara mikið út um hvippinn og hvappinn til að sinna viðgerðum og þess háttar. Og það er þannig hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að fleiri karlar en konur sinna því enn þann dag í dag. Gott og vel, við skulum reyna að breyta því. Ég held að það sé verðugt markmið. En á þessar tölur í sjálfu sér er ekki ástæða til að vera uppi með miklar árásir heldur er ástæða til að grafast fyrir um orsakirnar og reyna að breyta þeim. Ég held að það sé aðalatriðið í þessu.