Kjör ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:20:00 (1309)

1998-11-18 16:20:00# 123. lþ. 26.11 fundur 216. mál: #A kjör ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli og taka undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það að ráðherrann segði nei við fyrri spurningunni --- ég gat heldur ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi --- og byggði þessa neitun á því að ekki væri hægt að bera saman tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja.

Það er vissulega rétt að þetta er ekki að öllu leyti sambærilegt en við hins vegar vitum að það er veruleg fátækt meðal mjög margra aldraðra og ekki er langt síðan aldraðir stóðu úti á Austurvelli og mótmæltu kjörum sínum og gerðu ekki bara þá kröfu að hjúkrunarrýmum yrði fjölgað heldur lögðu þeir fram ýmis önnur réttlætismál þegar þeir settu fram sínar kröfur.

Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að hún endurskoði þessa afstöðu sína fyrir afgreiðslu fjárlaga og hefji ár aldraðra --- sem reyndar er ekki bara næsta ár, það hófst eins og hér kom fram áðan 1. október --- með því að heita því að aldraðir fái þessa leiðréttingu eins og öryrkjar.