Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 10:33:14 (1313)

1998-11-19 10:33:14# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[10:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar fjármagnstekjuskattur var lögleiddur hélt stjórnarandstaðan því fram að útfærsla stjórnarflokkanna á skattinum yrði til þess að hygla sérstaklega stórum fjármagnseigendum, að opna fyrir lögleg en siðlaus undanskot á launatekjum frá skatti, að afleiðing þess að skattleggja arð á söluhagnað með öðrum hætti en launatekjum mundi leiða til verulegs tekjutaps fyrir ríkissjóð og að fjármagnstekjuskattur yrði fyrst og fremst skattur á lítinn sparnað almennings. Allt þetta hefur gengið eftir en stjórnarflokkarnir höfnuðu tillögum stjórnarandstöðunnar um ákveðið frítekjumark í fjármagnstekjuskatti til að hlífa litlum almennum sparnaði og að arður og söluhagnaður yrði skattlagður eins og launtekjur.

Í svari fjmrh. við fyrirspurn minni um framkvæmd fjármagnstekjuskatts má sjá að staða stóreignafólks og hinna raunverulegu fjármagnseigenda batnaði með upptöku fjármagnstekjuskattsins. Skattlagning arðs, söluhagnaðar og leigutekna á framtölum ársins í ár með 40% skatthlutfalli hefði gefið ríki og sveitarfélögum tæplega 1.100 millj. kr. meira í tekjur en raunin varð á með 10% skatti eins og ríkisstjórnin valdi. Þetta er skattur sem er fyrst og fremst greiddur af stóreigna- og hátekjufólki og afleiðing þeirrar ákvörðunar að leggja skatt á arð með öðrum hætti en á launatekjur.

Aftur á móti eru nýjar tekjur sem myndast vegna fjármagnstekjuskatts frá því sem áður var aðallega vextir af bankainnstæðum eða um 400 millj. kr. sem ellilífeyrisþegar, unglingar og almennt launafólk með lítinn sparnað greiðir. Skattalegt hagræði af því að breyta rekstrarformi sjálfstæðra atvinnurekenda yfir í einkahlutafélög er líka staðfest á skattframtölum því að sjálfstæðum atvinnurekendum fækkar um 700--800 bara milli áranna 1997 og 1998 en frá 1996 hefur fjöldi einkahlutafélaga aukist um 2.600.

Hæstv. fjmrh. hefur byggt andmæli sín við málflutningi mínum á lagabreytingu sem er ekki enn komin til framkvæmda og breytir engu um þær niðurstöður sem ég setti fram um áhrif af fjármagnstekjuskatti á fyrsta árinu sem hann er lagður á. Þrátt fyrir lagabreytinguna mun líka verða áfram í kerfinu skattalegt hagræði sem mismunar launþegum og eigendum fyrirtækja í fjármagnstekjuskatti. Staðreyndirnar eru þessar:

Með frádráttarbærni arðs frá skattskyldum hagnaði var við álagningu skatta á þessu ári hægt að eyða hagnaði að tilteknu marki og taka verulegan hluta launa út í arði með 10% skatti í stað 40% sem launafólk greiðir og fá líka þannig bótagreiðslur frá ríkinu eins og barnabætur og óskertar vaxtabætur. Þessu líta málsvarar fjármagnseigenda alveg fram hjá.

Með lagabreytingu sem var samþykkt í vor og kemur til framkvæmda við álagningu skatta á næsta ári vegna tekna þessa árs á enn að lækka tekjuskatta fyrirtækja úr 33% í 30. Á móti er frádráttarbærni útborgaðs arðs frá hagnaði felld niður. Það dregur eitthvað úr hagkvæmni þess að taka út arð í stað launa en borgar sig samt. Í því sambandi vil ég leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

Hver er skoðun ráðherra á því að þó að hagnaður af því að taka út atvinnutekjur sem arð minnki á þessu ári vegna lagabreytinga frá í vor, þá sé áfram enn verulegt skattalegt hagræði að því að söluhagnaður og arður sé skattlagður miklu lægra en launatekjur og með breyttu rekstrarformi hægt að sleppa við hátekjuskatt og tryggingagjald?

Telur hæstv. fjmrh. rétt í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram að endurskoða framkvæmd fjármagnstekjuskatts? Ef svo er, hvað þarf endurskoðunar við að mati hæstv. ráðherra?

Telur hæstv. ráðherra ekkert athugavert við að fjármagnseigendur hafi getað tekið verulegan hluta launa sinna út í arði og greitt þannig 10% skatt af tekjum sínum meðan launamaðurinn greiðir um 40% skatt?

Hvert er álit hæstv. ráðherra á því að þeir sem möguleika hafa haft á því að taka verulegan hluta launa sinna út í arði og á móti skammta sér lágar launatekjur skuli með því móti geta fengið bótagreiðslur úr ríkissjóði?

Mun hæstv. ráðherra grípa til aðgerða til þess að bæta framtalsskil í vaxtatekjum og hverja telur ráðherrann vera skýringu á því að framtalsskil á vöxtum af bankainnstæðum batna verulega meðan framtalsskil á vöxtum af verðbréfum minnkar mikið milli ára?

Og loks: Telur hæstv. ráðherra rétt að skattyfirvöld hafi aðgang að upplýsingum frá fjármálastofnunum um bankainnstæður og verðbréfaeign eins og skattyfirvöld hafa farið fram á til að geta staðreynt upplýsingar um skattlagningu vaxta?