Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 10:46:49 (1316)

1998-11-19 10:46:49# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[10:46]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið að sprengja hér miklar blöðrur út af þessu fjármagnstekjuskattsmáli. Það er athyglisvert að í kjölfar breytinga sem gerðar voru hækka tekjur ríkissjóðs vegna skattlagningar á arði um 40%. Skatttekjur af söluhagnaði hækka um 80%. Með þessum breytingum hefur því orðið töluverð tekjuaukning hjá ríkissjóði. Það skyldi nú enginn líta á þetta sem gífurlegt vandamál, en hins vegar virðist vera eins og hv. þm. skilji kannski ekki alveg einföldustu atriði í sambandi við þetta mál. Það sem kemur inn í kassann fer að sjálfsögðu eftir þeirri skattprósentu sem lögð er á vegna þess að skattstofninn sjálfur breytist. Sem dæmi um þetta getum við tekið að hér í bænum eru ákveðnar verslanir sem hagnast mikið á því að selja matvöru ódýrt, tökum t.d. Bónus sem leggur mikið upp úr því að vera með billegri vöru en Hagkaup eða Nýkaup. Við getum rétt ímyndað okkur hve mikil velta yrði í Bónus ef þeir færu að selja allt í einu á sama verði og Hagkaup eða Nýkaup. Veltan mundi að sjálfsögðu detta dálítið niður og hagnaðurinn af viðskiptunum mundi sömuleiðis minnka.

Það er nefnilega þannig að ef hlutur er verðlagður of hátt þá minnkar salan og ef hann er verðlagður lágt þá eykst salan. Hagnaðurinn getur því orðið meiri með lægra verði. Þetta eru ákveðin undirstöðuatriði sem ég tel að hv. þm. ætti að fá smákennslustund í hjá flokksbræðrum sínum sem sumir hverjir kunna þessi fræði afar vel.