Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:51:29 (1334)

1998-11-19 11:51:29# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert nýtt að menn hafi ólíkar skoðanir á framtíðinni. Ef menn hefðu sömu skoðanir á framtíðinni mundu a.m.k. mörg deilumál á Alþingi leysast. Það er einfaldlega mín skoðun að þegar menn eru komnir með svona stór kjördæmi eins og lagt er til þá sé ekki lengur það inntak í heitinu kjördæmi sem menn þekkja í dag. Það þarf ekkert að skýra fyrir hv. þm. hvers vegna það er þegar þessi stóru kjördæmi koma fram. Ég held að þetta muni mjög fljótlega breyta afstöðu fólks til hugtaksins kjördæmi í þá veru að mjög stutt skref sé frá þessari breytingu og yfir í að gera landið allt að einu kjördæmi. Það er mín trú að það skref verði stigið fljótlega. En ég skil hv. þm. mjög vel þó að hann sé ekki þeirrar skoðunar. Þetta er mín skoðun og ég hef fullan rétt á að láta hana koma fram.

Um hitt atriðið segir svo í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Talnalegar athuganir, sem nefndin lét gera, sýna að 9 til 10 jöfnunarsæti nægja til að tryggja sæmilega vel jöfnuð milli flokka.``

Það eru líkur á því að það geti gerst að jöfnuður milli flokka náist ekki jafngóður í þessu kerfi eins og hann er nú og það er gefið í skyn í greinargerðinni að svo geti farið. Á þetta leyfi ég mér að benda.