Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 12:34:49 (1339)

1998-11-19 12:34:49# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[12:34]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir sat fyrir hönd Kvennalistans í nefnd þeirri sem undirbjó þær breytingar sem boðaðar eru í þessu frv. og mun væntanlega á eftir fjalla nánar um sitthvað sem lýtur að þeim störfum. Sem þingflokksformaður er ég hins vegar einn af flytjendum frv. og er ágætlega sátt við það enda hef ég fylgst náið með undirbúningnum og tel að hér hafi náðst sú niðurstaða sem er eðlilegust og réttust miðað við allar forsendur og þau markmið sem nefndin setti sér og tíunduð eru í upphafi greinargerðar.

Auðvitað er deginum ljósara að þetta frv. er málamiðlun sem náðist fram eftir mikla vinnu fulltrúa allra stjórnmálaafla sem eiga nú fulltrúa á Alþingi. Um þessa leið og raunar allar leiðir eru skiptar skoðanir innan flestra þingflokka má ég segja og efalaust má með sanni segja að enginn sjái hér óskaleið sína. Allmargir þingmenn hefðu viljað sjá landið allt gert að einu kjördæmi með hnífjöfnu atkvæðavægi þar sem á hinn bóginn allmargir telja einmenningskjördæmi besta kostinn. Oft hafa síðan verið á lofti hugmyndir um sambland af þessu tvennu eins og dæmi eru um í öðrum löndum og svo eru náttúrlega þeir sem sætta sig prýðilega við stöðuna eins og hún er nú og vilja helst engu breyta. Í ljósi alls þessa er í rauninni stórmerkilegt og nánast afrek að nefndin skyldi ná sátt og niðurstöðu um þá leið sem hér liggur nú á borðinu og má formaður nefndarinnar, hv. þm. Friðrik Sophusson, vel una við þann svanasöng sinn á Alþingi Íslendinga.

Auðvitað eru bæði kostir og gallar við þá leið sem frv. boðar. Kostirnir eru þeir helstir að sjálfsögðu að verulega er dregið úr því misvægi atkvæða sem nú ríkir og svo hitt að nær algert jafnvægi verður milli þingmannahópa kjördæmanna sem ég tel ótvíræðan kost. Að vísu blasir við að sú jöfnun atkvæðavægis sem þetta frv. boðar er líkleg til að raskast fyrr en síðar og jafnvel mjög fljótlega, hvað sem öllum byggðaaðgerðum líður. En eins og fram kemur í töflu í greinargerðinni verða flest atkvæði að baki hverjum þingmanni í svonefndu Suðvesturkjördæmi og einmitt á því svæði er fyrirsjáanleg mesta fólksfjölgunin á næstu árum. Fyrst ég er farin að minnast á það svæði verð ég að viðurkenna að ég horfi á eftir Suðurnesjum yfir til Suðurlandsins með miklum trega og eftirsjá.

Það hefur einmitt verið mjög skemmtilegt og ögrandi að starfa í kjördæmi mínu, Reykjaneskjördæmi, sem samanstendur í rauninni af þremur allólíkum heimum, þ.e. sveitunum í norðvesturhluta kjördæmisins sem bera þó þess merki að vera í nágrenni höfuðborgarinnar og þéttbýlisins í kring, annar heimur er svo þéttbýlið í kringum höfuðborgina og svo eru það Suðurnesin, þar sem hvert þessara svæða markast af sinni sérstöðu í atvinnumálum og reyndar í öllu öðru tilliti. Ég sé verulega eftir Suðurnesjunum og tel kjördæmið fátækara og einhæfara eftir en áður. En það breytir því ekki að ég tel þetta óhjákvæmilegt og vona svo sannarlega að þessi breyting komi Suðurnesjamönnum til góða og verði t.d. til þess að ýta myndarlega á eftir því verkefni eða að ráðist verði í það verkefni sem við höfum a.m.k. sum okkar átt að óskaverkefni. Þar á ég við uppbyggingu Suðurstrandarvegar milli Þorlákshafnar og Grindavíkur en slík framkvæmd yrði bylting í samgöngum á þessu svæði og reyndar öllum samskiptum og kæmi t.d. bæði sjávarútvegi og ferðaþjónustu að miklu gagni. En nóg um það. Það er eins og ég sagði víst óhjákvæmilegt að skipta Reykjaneskjördæmi á þennan hátt til þess að ná þeim markmiðum sem sett voru.

Sama má segja um Reykjavík. Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi er nokkuð sem margir eiga erfitt með að kyngja en þjónar einmitt sama tilgangi, að ná fram jöfnuði milli þingmannahópa kjördæmanna. Verður allspennandi að fylgjast með því hvernig menn leysa þann vanda sem upp kemur við þessa skiptingu, hvort hún mun hafa í för með sér mikla flutninga núv. hv. þm. Reykjavíkur sem af einhverjum ástæðum eiga sér flestir heimili vestan Elliðaár. Ég dreg ekki í efa að þessi skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi muni hafa í för með sér talsverða erfiðleika í öllu stjórnmálastarfi en býður líka upp á ný vinnubrögð sem kunna að reynast ágætlega þegar fram í sækir og ætla ég ekki að spá neinu vondu í því efni. Tíminn einn sker úr um það.

Ég býst þó við að landsbyggðarþingmönnum þyki sá vandi harla smár sem þingmenn þéttbýlisins á suðvesturhorninu sjá fram á miðað við þann vanda sem við þeim blasir þegar kjördæmi þeirra, þ.e. landsbyggðarþingmannanna, margfaldast að stærð og yfirferð og hefur að sjálfsögðu í sér fólgnar ýmsar afdrifaríkar breytingar gæti ég ímyndað mér, t.d. þar sem landfræðileg staða ákveðinna þéttbýliskjarna flyst til og það mun vafalaust hafa einhverjar þær afleiðingar sem við getum ekki alveg gert okkur grein fyrir nú á þessari stundu. Við getum t.d. nefnt að Akureyri sem hefur verið að byggjast upp og er orðinn einn aðalþéttbýliskjarninn utan Reykjavíkur verður allt í einu orðin eins konar jaðarbyggð í mjög stóru kjördæmi og verður athyglisvert að sjá hvort það muni hafa einhverjar afleiðingar fyrir það kjördæmi enda sá nefndin sem vann málið að við þessum breyttu aðstæðum yrði að bregðast á einhvern hátt, m.a. með aukinni aðstoð við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna og er þegar farið að vinna að því máli. Ég hef ríkan skilning á þeim vanda sem þarna blasir við en bind vonir við störf og niðurstöður þeirrar nefndar sem skipuð var til að vinna að úrlausnum en fulltrúi Kvennalistans í þeirri nefnd er fyrrv. þingkona Kvennalistans, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Herra forseti. Út af fyrir sig væri ástæða til að ræða ýmis atriði sem eru að vísu viðfangsefni annars frv. sem leiðir af þessu og kemur til umfjöllunar síðar, og reyndar ekki fyrr en á næsta kjörtímabili en er fjallað um í skýrslunni og að nokkru í greinargerð svo og eru drög að því frv. birt hér með þessu frv. Þar er t.d. um að ræða persónukjör sem ég hefði kosið að sjá taka meiri breytingum en í boði virðast og er hlynnt því að auka eins og unnt er möguleika kjósenda til að hafa áhrif á endanlega röð fulltrúa sinna sem þeir vilja styðja til löggjafarstarfa. Loks væri ástæða til að fara orðum um það hvernig þessar breytingar snerta hagsmuni kvenna en um þessi atriði kannski ekki síst veit ég að fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir, mun fjalla í ræðu á eftir og ætla ég því ekki að eyða tíma í það. Ég vil aðeins segja að ég tel að konur verði a.m.k. ekki verr settar en áður en tíminn einn sker úr um það hvort nýjar aðstæður verða þeim eitthvað hliðhollari.

Reyndar vil ég nefna enn eitt atriði þessa frv. sem er málamiðlun, sannarlega málamiðlun ólíkra sjónarmiða, en það er sá þröskuldur sem fram kemur í 4. mgr. 1. gr. að þau stjórnmálasamtök komi ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst 5% af gildum atkvæðum á landinu öllu. Ég tel þann þröskuld of háan og vinna gegn lýðræðislegum niðurstöðum kosninga en mér er kunnugt um að hugmyndir nefndarmanna um prósentutölu í þessu efni voru á bilinu frá 2--6% og hér er því mæst nokkurn veginn á miðri leið svo sem í ýmsum öðrum atriðum.

Aðalatriði þessa máls er að það frv. sem er nú til 1. umr. byggist á sátt og málamiðlun fulltrúa allra stjórnmálaflokka eða stjórnmálaafla sem eiga nú sæti á Alþingi. Það misvægi sem við búum nú við hefur reynt verulega á þolinmæði og réttlætiskennd fjölmargra kjósenda og stjórnmálamanna og mál til komið að taka á því. Þetta frv. er niðurstaða sem er í góðu samræmi við þau markmið sem nefndin setti sér og ég tel mikilvægt að þau nái fram að ganga.