Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 13:03:10 (1341)

1998-11-19 13:03:10# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú aldeilis ræða hjá hv. þm. og margt um hana að segja. Ég er að mörgu leyti sammála því sem þar kom fram. Eitt vil ég þó spyrja hv. þm. um sem laut að því sem hann sagði um útstrikanir, þ.e. fyrirætlanir um breytingar á því kerfi, sem mér heyrist hann taka heldur undir. Ég á bágt með að trúa því að menn geti tekið undir fyrirkomulag eins og þarna er lagt til, sem hefur það í för með sér að færri kjósendur ráði meira en fleiri kjósendur, sérstaklega í ljósi þess að allt þetta tilstand er nú vegna þess að menn telja að fleiri kjósendur ráði of litlu. Þá er lagt til í þessum útstrikunartillögum að fáir kjósendur geti haft miklu meira að segja en margir kjósendur með útstrikunum, þannig að frambjóðandi sem fær kannski 800 atkvæði í 1. sæti fái það ekki vegna þess að 200 kjósendur vilja ekki hafa hann í 1. sæti. Mér finnst það mjög einkennilegt ef 200 kjósendur eiga að ráða miklu meira en 800 kjósendur, eins og er að finna í þeim tillögum sem þarna eru lagðar til.