Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:02:00 (1350)

1998-11-19 14:02:00# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt er vissulega eitt af stóru málunum vegna þess að þetta varðar grundvallarþætti stjórnskipunar okkar. Þetta er frv. til stjórnarskipunarlaga og er auðvitað mál sem þarf mjög mikillar íhygli við. Þetta mál á sér nokkuð langan aðdraganda og hefur verið talsvert mikið í umræðunni, þó að ég telji sjálfur að sú umræða hafi verið út frá afar þröngum sjónarhóli og það sé kannski galli við málið að menn hafa verið í aðdraganda þess dálítið mikið uppteknir af einum þætti þess að búa til kjördæmaskipan og kosningalög.

Ég held að því miður hafi niðurstaðan verið sú að hér sé ekki stefnt til réttrar áttar, bæði hvað varðar misvægi atkvæða og eins hitt, sem er reyndar niðurstaðan eða hin rökrétta niðurstaða af því sem nefndin komst að niðurstöðu um sjálf sem er þessi mikla stækkun kjördæmanna.

Ég ætla aðeins að víkja að því sem ég tel vera grundvallaratriði í umræðunni og það er spurningin um vægi atkvæða. Það er ekkert sjálfgefið að kosningakerfi eigi að tryggja jafnt vægi atkvæða. Ef við skoðum þetta úti í hinum stóra heimi þá er það þannig að kosningakerfin eru mjög mismunandi. Við höfum einmenningskjördæmi og við höfum hlutfallskosningar og við höfum ýmislegt þar á milli. Það er ljóst að mismunandi kosningakerfi af þessu taginu leiða til mismunandi niðurstöðu. Menn geta auðvitað ekkert gefið sér það sem einhverja gefna, fasta stærð að meginmarkmiðið og eina markmiðið og höfuðmarkmiðið eigi að vera kannski það tryggja sem jafnast vægi atkvæða. Það eru ýmsir aðrir hlutir sem hljóta líka að koma til álita.

Ég vil líka minna á það, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, að auðvitað hefur verið stigið stórt skref í þessum efnum með því að búið er að tryggja fullt jafnræði milli stjórnmálaflokkanna. Þetta var það viðfangsefni sem menn voru að glíma við fyrr á öldinni og nú er búið að leysa það mál með því fyrirkomulagi sem við þekkjum í dag. Með öðrum orðum er ótalmargt sem menn þurfa að velta fyrir sér þegar verið er að setja niður texta að nýjum kosningalögum og nýrri stjórnskipun og það eru nokkur slík álitaefni sem mig langar að velta upp í umræðunni.

Í Bretlandi eru menn líka að velta fyrir sér hlutum af þessu taginu. Þar hefur ríkt fyrirkomulag einmenningskjördæma og núna er að störfum nefnd undir forustu lávarðsins Jenkins, fyrrverandi ráðherra Verkamannaflokksins og þingmanns frjálslyndra, sem hefur verið að skoða þessi mál og hefur nýlokið störfum. Ég hef undir höndum skýrslu frá þessari nefnd sem ég hef að vísu ekki lesið til hlítar en hef aðeins gluggað í. Það er afar fróðlegt að sjá hvernig sú nefnd nálgast þetta viðfangsefni sitt, hvernig hún skilgreinir hvaða álitamál séu uppi þegar menn eru að fjalla um kosningalagafyrirkomulag.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvernig endurspeglar kosningakerfið vilja kjósenda? Við getum sagt að þetta sé kannski það sem hefur verið efst á baugi í umræðunni hér á landi um kosningafyrirkomulag og stjórnskipun. Því er í öðru lagi velt fyrir sér, sem hefur verið grundvallarþáttur í breskri stjórnskipan, að menn hafi þar kosningalagafyrirkomulag sem leiði fyrst og fremst til stöðugrar ríkisstjórnar og auðveldi ríkisstjórnarmyndun. Í þriðja lagi velti þessi nefnd fyrir sér spurningunni um aukið persónuval, sem nefndin gerði einnig undir forustu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Í fjórða lagi velti þessi nefnd líka fyrir sér spurningunni: Hvernig er hægt að tryggja sem best tengsl þingmanna og kjördæmanna og þess fólks sem þar býr?

Hvað þýðir þetta? Þetta er auðvitað markmið eða viðfangsefni sem er ekkert endilega samrýmanlegt. Það að reyna að leggja áherslu á að kosningakerfið tryggi sem jafnast vægi atkvæði og kosningakerfi þar sem höfuðmarkmiðið er að tryggja meirihlutamyndun ríkisstjórnar eru ekkert endilega samrýmanleg markmið. Menn komust að þeirri niðurstöðu í Bretlandi fyrr á öldinni að besta leiðin til þess að tryggja stöðugleika í ríkisstjórnarmyndun og auðvelda ríkisstjórnarmyndun væri að hafa einmenningskjördæmi sem hefðu í för með sér að ríkisstjórn á hverjum tíma styddi við kláran þingmeirihluta flokks síns þrátt fyrir að viðkomandi ríkisstjórn hefði ekki endilega --- og alls ekki og nánast aldrei --- meiri hluta atkvæða á bak við sig. Við sáum að í Bretlandi leiddi það m.a. til þess að þriðja aflið í breskum stjórnmálum, sem jók fylgi sitt nokkuð í kosningunum 1983, fékk þar um fjórðung atkvæða, fékk einungis 3% þingsæta. Ég held að engum hafi dottið í hug á þeim tíma að ríkisstjórn þeirra ára hafi ekki verið lýðræðislega kjörin. Hún var vitaskuld lýðræðislega kjörin en hún hafði ekki meiri hluta atkvæða á bak við sig. Misvægi atkvæða birtist mönnum með þeim hætti sem ég hef verið að rekja.

Það er nefnilega þannig að þjóðfélag okkar er ansi flókið og margslungið fyrirbrigði. Við höfum kosið að draga kjördæmamörkin á grundvelli búsetu og byggða, ekki á grundvelli tiltekinna hópa, starfsstétta, kynjanna eða eitthvað þess háttar. Um þetta er enginn ágreiningur okkar í milli, þetta er viðurkennt og hefur alltaf verið og þannig er þetta víðast hvar og alls staðar þar sem ég þekki til a.m.k.

Þá þarf auðvitað að gæta þess þegar við tökum þessa ákvörðun að raddir fólksins í dreifbýlinu, þeirra sem búa þar sem fámennið er meira, fái líka að endurómast í sölum Alþingis. Það fái líka sinn sess í þeirri þjóðfélagsumræðu, grundvallarþjóðfélagsumræðu sem fer fram á þjóðþinginu. Það er þetta sem gerir það að verkum að það er eðlilegt að tiltekið misvægi atkvæða ríki á Alþingi. Síðan getum við deilt um það hvert þetta misvægi eigi að vera. Niðurstaða nefndarinnar var sú að það mætti vera 1,8 og allt að 2. Endurskoðað álit nefndarinnar var það að eðlilegt væri að fara með þetta misvægi heldur neðar, niður í 1,7:1. En auðvitað er þetta engin hárfín lína, auðvitað er þetta ekkert vísindalega dregin réttlætislína. Við getum vel hugsað okkur að þetta misvægi væri eitthvað örlítið meira og þá væri niðurstaðan allt önnur, möguleikarnir til þess að búa til kosningalagakerfi allt aðrir.

Um leið og ákvörðunin var tekin um að ganga þetta langt í þá átt að minnka misvægi atkvæða gat að mínu mati niðurstaðan aldrei orðið önnur en sú að kjördæmin stækkuðu. Ég er alveg sammála til að mynda hv. þm. Friðriki Sophussyni, formanni kosningalaganefnarinnar, um að auðvitað væri ekki viðunandi niðurstaða að vera með tveggja eða þriggja manna kjördæmi á móti þessum risakjördæmum sem yrðu þá til staðar á höfuðborgarsvæðinu. Ég er alveg sammála því.

Þess vegna held ég að heila meinið í þessu sé það hversu langt menn gengu í áttina að því að minnka þetta misvægi atkvæða. Ég hef verið að reyna að færa nokkur rök fyrir því að það sé ekkert óeðlilegt, allra síst með skírskotun til þess sem tíðkast víða í kringum okkur, að það sé tiltekið misvægi atkvæða. Ég sé ekki grundvallarmun á því að lína sé dregin um töluna 2,5 eða 1,7. Ég held einfaldlega að um það hefði ríkt meiri sátt í þjóðfélagi okkar, það hefði haft yfir sér meira sáttayfirbragð, að við hefðum komist að þeirri niðurstöðu að slíðra sverðin, við sem höfum haft andstæð sjónarmið í þessum efnum, á punktinum 2,5 fremur en að ganga þetta langt.

Menn skulu átta sig á öðru. Það horfir mjög þunglega í íbúaþróuninni víða á landsbyggðinni. Við vitum að framreikningar og spár eru afar hættuleg fyrirbrigði vegna þess að ekki þarf annað en að forsendur breytist eitthvað og þar með breytast forsendur spánna eða framreikninganna. En á grundvelli þeirrar skelfilegu, dapurlegu íbúaþróunar sem hefur verið á síðustu árum var gerður framreikningur --- ekki spá --- framreikningur. Hann bendir til að ef kosið verður eftir þessum nýju lögum, á grundvelli þessa frumvarps á árinu 2003, gerist það strax við kosningarnar þar á eftir árið 2007 að í Vesturkjördæminu, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, sem hafa vel að merkja núna samanlagt 15 þingmenn, fækki þingmanni strax um einn. Tillagan gerir ráð fyrir því að þessi þrjú kjördæmi hafi tíu þingmenn, níu kjördæmakjörna, einn jöfnunarmann, fækkun um 1/3, þriðjungsfækkun. Árið 2007, ef kosið verður í fyrsta skipti eftir þessu 2003, fer þingmannatalan niður í níu, væntanlega átta kjördæmakjörna, einn jöfnunarmann. Árið 2011, samkvæmt sömu framreikningum fækkar þingmönnum um einn, og þá er staðan orðin sú að þessi kjördæmi, sem hafa núna 15 þingmenn verða komin með 8.

Þetta finnst mér stefna mjög til rangrar áttar. (Gripið fram í: Það verða að vera góðir þingmenn.) Og þá reynir á að þetta séu góðir þingmenn, rétt er það.

Ég spyr líka: Hefði ekki verið hægt a.m.k. að sýna þann vott af einhverri sanngirni í þá áttina --- í stað þess að hafa þennan einstefnuloka eins og ég kalla það, að þingmönnum fækki stöðugt --- að ef sú gleðilega þróun yrði, sem ég held að allir þingmenn voni, að íbúaþróunin breyttist og íbúum á vestursvæðinu fjölgaði aftur og vægið færi aftur upp fyrir 1:2, að sá mekanismi væri innbyggður í þetta kerfi að þingmönnum fjölgaði þar aftur þannig að þessi svæði eygðu þá einhverja von? Ég hef ekki skilið þetta frv. þannig að opnað sé fyrir þennan möguleika, en það væri þá a.m.k. --- við skulum segja svona vinsamleg vísbending frá löggjafanum til þess fólks sem þarna býr, að það gæti rétt sinn pólitíska hlut ef íbúafjöldinn ykist nú að nýju því að ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur aðeins á því hvað er í raun og veru að gerast. Við erum að draga úr misvægi atkvæða, rétt er það. Ég er tilbúinn til að ganga að einhverju leyti í þá áttina, en hér er allt of langt gengið.

[14:15]

Eins og staðan er virðist mér aðgerðin byggjast fyrst og fremst á því að þingmönnum þessa svæðis, vestursvæðisins, fækki. Fari úr 15 í 10, þ.e. að þingmönnum fækki um fimm. Ef við tökum síðan stóra Austurkjördæmið sem nær frá Öræfum að Siglufirði, verða þingmenn þar einum færri en í dag, samanlagt í Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandi. Ég vil því höfða til sanngirni þingmanna og segja: Menn verða að horfa dálítið á þetta svæði, vesturhluta landsins, sem verið hefur veikt hvað íbúafjölda áhrærir.

Virðulegi forseti. Ætlun mín var ekki að flytja hér langt mál um þetta mikla viðfangsefni. Ég hef haft tækifæri til þess að ræða um það á ýmsum öðrum vettvangi, m.a. í þingflokki mínum. Ég tel að þetta mál snúist ekki um landafræði. Þetta snýst ekki um það hvort lína sé dregin við þennan fjörð eða þennan fjallgarðinn. Þetta snýst frekar um að tryggja ákveðinn hlut þess strjálasta dreifbýlis sem átt hefur í nokkrum vanda. Menn segja sem svo: Ja, þessi mikli þingmannafjöldi hefur nú ekki dugað mikið. Rétt er það. En hvað eru menn þá að segja? Eru menn þá að segja að þingmennirnir hafi ekki verið nægilega duglegir eða eru menn að segja að eftir því sem hin pólitíska rödd strjálbýlisins verði veikari, þeim mun betri verði hagurinn þar? Ég held að menn eigi nú tæplega við það.

Virðulegi forseti. Þetta mál er afar vandasamt. Þetta mál er líka mjög margslungið. Þetta mál er þess eðlis að það hefur á sér margar hliðar. Það er að fleiru að hyggja en spurningunni um misvægi atkvæða. Ég held því að málið verðskuldi mikla íhygli og menn þurfi að skoða ýmsa þætti og gera sér grein fyrir því að þær grundvallarspurningar sem við spyrjum okkur sjálf þegar við ræðum um kjördæmaskipan eru þess eðlis að þær geta í sjálfu sér verið mótsagnakenndar innbyrðis. Svörin eru á þann veg að þau leiða alltaf til þess, vilji menn tryggja eitt markmið með kosningalögunum, að menn gangi yfir einhver önnur. Vilji menn tryggja klárlega meirihlutaríkisstjórnir eins og menn hafa verið að gera með einmenningskjördæmum er ekki víst að með því geti menn líka tryggt tiltekið vægi atkvæða. Þetta held ég að sé mikilvægt að menn hafi í huga og geri sér grein fyrir að þetta mál er afar flókið og margslungið í meðförum.