Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:19:35 (1352)

1998-11-19 14:19:35# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson flutti langt mál og snjallt sem m.a. laut að breskri kjördæmaskipan. Hv. þm. gat þess að þar hefðu menn þróað tiltekið kerfi sem m.a. hefði verið hannað með það fyrir augum að auðvelda stjórnarmyndanir. Mér fannst vanta punktinn í þessa röksemdafærslu hjá hv. þm. Telur hann e.t.v. að sú tillaga sem nú liggur fyrir muni torvelda myndun meirihlutastjórna?

Í annan stað, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að atkvæðaréttur sé mannréttindi. Ég tel það vera brot á grundvallarmannréttindum þegar atkvæðavægi er misjafnt, t.d. eftir búsetu. Ég tel það óhæft að bera fyrir sig byggðaþróun til stuðnings því að brjóta þessi mannréttindi. Hv. þm. talaði hins vegar þannig að ljóst er að hann er þeirrar skoðunar að það sé í lagi. Mig langar því að inna hv. þm. eftir rökum hans fyrir þeirri skoðun, að það sé í lagi að búseta ráði atkvæðavægi manna. Mér finnst þetta grundvallarspurning í þessari umræðu og sér í lagi í þeim málflutningi sem hv. þm. hafði uppi.