Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:50:33 (1358)

1998-11-19 14:50:33# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:50]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ef það væri svo að t.d. Framsfl. hefði meiri rétt en aðrir flokkar vegna þess að það væri minna vægi atkvæða á bak við hvern þingmann þeirra eins og var hér áður fyrr, ef sem sagt flokkarnir stæðu misjafnlega að vígi hvað þetta varðar, þá væri um mannréttindabrot að ræða að minni hyggju.

Eins og ég rakti hérna áðan meðan hv. þm. var utan dyra þá er enginn munur á rétti manna hvort sem þeir búa á Vestfjörðum, Reykjavík eða Reykjanesi eða Norðurl. vestra til að hafa áhrif á það hvaða flokkar fá menn á þing og hvaða stjórnir eru myndaðar. Hvað það varðar hefur hver maður eitt atkvæði. Ég hef eitt atkvæði og hv. þm. hefur eitt atkvæði. Það er enginn munur á því eftir búsetu þannig að við stöndum allir jafnt að vígi hvað það varðar og það skiptir mestu máli.

Munurinn kemur aftur á móti eingöngu fram innan flokkanna því að núverandi skipan leggur áherslu á að það séu hlutfallslega fleiri landsbyggðarmenn miðað við mannfjölda en þéttbýlismenn sem eru valdir og það er önnur hlið á málinu sem mér finnst að menn verði að sætta sig við vegna hinna sérstöku aðstæðna.