Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:53:54 (1360)

1998-11-19 14:53:54# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi það í fyrra andsvari sínu að þrátt fyrir að landsbyggðarkjördæmi hefðu marga þingmenn hefði það ekki gagnast þeim og að fólksflóttinn væri gífurlega mikill og spyr nú hvort fjölga eigi þingmönnum. Auðvitað er ekki verið að ræða það hvort fjölga eigi þingmönnum t.d. á Vestfjörðum. En samkvæmt frv. sem kynnt er í greinargerð með stjórnarskrárfrv. eiga að verða tíu þingmenn í þremur kjördæmum sem nú hafa 15 þingmenn. (ÖS: Jafnvel í átta.) Já, gæti jafnvel farið niður í átta. Við stöndum því frammi fyrir því að eftir að þetta væri komið til framkvæmda gæti farið svo að enginn þingmaður hefði sérstök tengsl við Vestfirði eftir að þessi breyting hefði gengið í gegn. Það er hreint ekkert ólíklegt að svo geti farið að eitthvert eitt af þessum þremur fyrri kjördæmum yrði algerlega þingmannslaust eftir að þessi breyting hefði gengið í gegn og það held ég að yrði ekki þeim svæðum mjög til framdráttar. Það held ég að allir muni skilja. Þetta er því ákveðin varnarbarátta sem hér fer fram að menn vilja ekki að svona nokkuð geti gerst. Menn vilja reyna að haga því þannig að allir landshlutar eigi örugglega þingmenn á Alþingi.