Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:56:51 (1361)

1998-11-19 14:56:51# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum mjög mikilvægt mál sem er frv. til stjórnarskipunarlaga sem hæstv. forsrh. mælti fyrir í morgun og margir hafa tjáð sig um síðan. Jafnframt liggur hér fyrir skýrsla um endurskoðun á kjördæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis með sjónarmiðum sem snerta þetta mál náið þó ekki sé hugmynd að lögleiða ný kosningalög fyrr en á næsta þingi.

Ég tel að eins og málið liggur fyrir séu á því afar miklir meinbugir. Ég tel að það markmið eða sú uppsetning sem umrædd nefnd sem vann þetta mál í hendur hæstv. forsrh. á sínum tíma og skipuð var af forsrn. hafi langt frá því hitt naglann á höfuðið þegar hún lagði grunninn að starfi sínu. Það er auðvitað upphafið sem ræður mestu um niðurstöðu og ég hlýt að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það hvernig þar hefur tekist til.

Ég hef ekki verið andsnúinn því að kosningalög og stjórnarskipunarlög væru endurskoðuð, hvorki fyrr né síðar. Það er sjálfsagt að fara yfir þau efni öðru hverju á Alþingi, enda hafa verið gerðar breytingar nokkrum sinnum á þessum málum á liðnum áratugum. Þó að grunnurinn að núverandi kjördæmaskipan sé frá árinu 1959 hafa verið gerðar breytingar síðan m.a. til að koma til móts við sjónarmið sem uppi hafa verið í samfélaginu og varða aðallega búsetuþróunina, að færa til þingsæti milli kjördæma vegna breytinga á fjölda íbúa.

Ég tel að sá mismunur sem þar er uppi á fjölda atkvæða á bak við þingmann í kjördæmum, og mikið er rætt um, sé vissulega álitamál en þó ekkert grundvallarmál, enda er heldur holt undir þeim málflutningi að tala um mannréttindabrot í þeim efnum eins og hér hefur verið gert í umræðunni, m.a. af hv. 9. þm. Reykv.

Mannréttindabrot eða mannréttindi eru almennt rædd út frá því að eitt gangi nokkurn veginn yfir alla og ekki verður náð neinu endanlegu réttlæti með því þó að vægi á bak við þingmenn eftir kjördæmum verði fært í hlutfallið 1:2 sem hámark, eins og má segja að sé aðalviðmiðunin í þessu máli, kannski eitthvað lægra sem stefnt er að, því að það er mismunun eftir sem áður. Það er dregið úr henni að þessu leyti en það er ekki komið í neina jafnstöðu. Þess vegna finnst mér afar hæpið að ræða málið á þeim grunni að hér sé verið að leiðrétta eitthvað sem er í grundvallaratriðum óþolandi.

[15:00]

Ég viðurkenni hins vegar að þetta er álitaefni og ekkert er óeðlilegt þó að gagnrýni komi á það fyrirkomulag, sérstaklega þegar í gangi er sú þróun í búsetu í landinu sem við þekkjum og teljum neikvæða þar sem fólk hefur streymt af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis eins og við orðum það almennt. Það sem er í samræmi við meginþætti í núverandi kosningalögum og hefur verið það undanfarna áratugi í aðalatriðum en kannski færst til betri vegar fyrir 15 árum með þeim breytingum sem þá voru gerðar, þ.e. að þingstyrkur þingflokka á Alþingi eða stjórnmálaflokka sé nokkurn veginn jafn og samsvari kjörfylgi þeirra. Það er mjög mikilvægt atriði. Því hefur verið fullnægt nokkurn veginn á undanförnum árum og að því er stefnt að varðveita það og halda því í þeim breytingum eða þeim tillögum sem liggja fyrir og það er vissulega vel.

Það var rakið skýrt í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Ragnars Arnalds, að það er þetta atriði sem skiptir sköpum þegar t.d. reynir á styrkleikahlutföll flokka á Alþingi, hvort flokkarnir endurspegla kjörfylgið og styrk sinn í landinu og skiptir auðvitað máli þegar kemur t.d. til myndunar ríkisstjórna og það er þýðingarmikið. Ég tel hins vegar að sá þáttur sem nefndin lagði sem grunn í tillögum sínum sé á misskilningi byggður, sé á röngu mati byggður, og það er það sjónarmið að við endurskoðun á kjördæmaskipan í landinu beri að stefna að því að mynda kjördæmi með nokkurn veginn svipaðri tölu íbúa, með nokkurn veginn svipuðum fjölda þingmanna og gert er ráð fyrir, 8--11 í kjördæmi, óháð landfræðilegri stærð kjördæmanna. Það er í mínum huga meginveikleikinn í þessum tillögum. Því fylgir ansi margt sem ég hlýt að gagnrýna og hefur verið gagnrýnt af ýmsum þingmönnum áður í umræðunni.

Virðulegur forseti. Að mínu mati er ekkert vit í því að setja upp einingar og búa til kjördæmi án þess að litið sé á landafræðina. Að skipta Reykjavíkurborg í tvennt með algerum gervimörkum er afar óskynsamlegt. Úti á landi er stefnt því að búa til stór kjördæmi eins og Norðausturkjördæmið sem á að spanna svæðið frá Siglufirði suður á Skeiðarársand og tekur landfræðilega séð nærri því yfir helming landsins eftir sjónmáli tekið, það gæti verið eitthvað nálægt 45%, ég hef ekki reiknað þetta út, í ferkílómetrum talið. Þetta er hið mesta óráð.

Nefndin sem vann þessar tillögur varð til með tilnefningu þingflokka en þingflokkarnir hafa ekki lagt blessun sína yfir þær tillögur. Ekki hefur reynt á það með uppgjöri innan þeirra að því er tekið er sérstaklega fram í þessum þingmálum sem við ræðum hér heldur hafa málin vissulega verið rædd innan þingflokka og þannig átti sá sem hér talar á sínum tíma aðild að þingflokki Alþb. þar sem þessi mál voru a.m.k. tvívegis á dagskrá og rædd og þá gagnrýndi ég þessar hugmyndir harðlega.

Auðvitað tókst illa til að því leyti varðandi tilnefningu í þessa nefnd að í hana skyldu flestir valdir af höfuðborgarsvæði, líklega með einni undantekningu þar sem er um að ræða hv. 3. þm. Norðurl. e. Nú er ég ekki að segja að góðar tillögur geti ekki komið af höfuðborgarsvæðinu einnig í þessum málum og ég er ekki að vantreysta neinum einstökum nefndarmanni að þessu leyti. En æskilegt hefði verið með tilliti til reynslu og viðhorfa að samsetning nefndarinnar hefði verið öðruvísi og þá efast ég um að þetta hefði orðið sá grunnur sem nefndin gekk út frá.

Það var hins vegar svo að einnig sá fulltrúi sem kom af landsbyggðinni og átti sæti í nefndinni, fulltrúi þingflokks Framsfl., skrifaði þar upp á tillögur sem voru síst betri en þær sem eru nú lagðar fram því að svolitlar breytingar voru gerðar á þessu máli á lokastigi í sambandi við mörk þessara stóru kjördæma. Því má segja að þar hafi komið fram að menn hafi ekki náð að fóta sig í þessum efnum jafnvel þó að búsettir væru utan höfuðborgarsvæðisins.

Hvað er það, virðulegur forseti, sem mælir gegn því að búa til þessar landfræðilega stóru heildir? Að mínu mati er það sú staðreynd að það er gersamlega vonlaust verkefni fyrir þingmann að halda því sambandi við kjósendur í þessum kjördæmum sem er æskilegt í hugum fólks úti um allt land svo ekki sé fastar að orði kveðið þegar þingmenn eiga í hlut, bæði að þingmenn eiga þess kost að fylgjast með þróun mála í öllum byggðarlögum á viðkomandi svæði og helst að eiga sem mest persónuleg samskipti við kjósendur eða a.m.k. að kjósendur eigi þess kost að hitta þá að máli, ekki aðeins einu sinni heldur oftar á ári hverju. Þetta hefur verið það verkefni sem ég þekki til sem þingmaður fyrir eitt af stærstu og að mörgu leyti erfiðustu landsbyggðarkjördæmunum þar sem er Austurl. og ég tel mig tala þar af nokkurri reynslu þegar ég fullyrði að með því að bæta Norðurl. e. við þetta kjördæmi er í rauninni verið að gefa þingmönnum fjarvistarsönnun frá því að rækta það hlutverk sem þeir hafa gegnt vegna þess að það verður ekki rækt af neinni skynsemi af hverjum þingmanni.

Hér var sagt í umræðu af hv. 3. þm. Norðurl. e. að þetta væri að sumu leyti auðveldara fyrir þingmenn til starfa. Það mynduðust hópar þingmanna, menn gætu skipt með sér verkum, einn væri þá fulltrúi einhvers hluta kjördæmis og annar ræktaði annan hluta. Auðvitað má hugsa sér eitthvað í þessa veru en ég held að það sé ekki farsælt að búa til módel, búa til kjördæmi sem kalli á slíkt sem nauðsyn til þess að þingmenn geti haldið sambandi við umbjóðendur sína og þetta byggir þá auðvitað á því að það séu margir þingmenn frá sama flokki sem kjörnir séu á viðkomandi svæði en það er auðvitað undir hælinn lagt hvernig þar hagar til. Ég tel því að grunnurinn sé í rauninni rangt lagður og þetta sé með öllu óaðgengilegt.

Ég er alveg sannfærður um það, virðulegur forseti, að þær tillögur sem hér er verið að bera fram eiga afskaplega lítinn hljómgrunn úti á landsbyggðinni, eiga afar takmarkaðan hljómgrunn og munu hljóta mikinn andbyr, hafa þegar gert það, þær tillögur sem voru ræddar á dögunum, og ég held að sú breyting sem gerð var á þeim að því er varðaði kjördæmamörk líklega í tveimur tilvikum, breyti engu í grundvallaratriðum varðandi sjónarmið fólks utan höfuðborgarsvæðisins hvað þetta snertir og að þessar tillögur eigi eftir að hljóta mikinn andbyr utan höfuðborgarsvæðisins a.m.k. og jafnvel innan þess líka.

Hvað er það þá, virðulegur forseti, sem ég hefði viljað sjá í staðinn fyrir þessar tillögur að því er snertir kjördæmaskipan? Þá er því til að svara að ég tel að það sé engin þörf á því að vera að búa til hliðstæðar einingar eða jafnstórar einingar hvað íbúafjölda snertir og þingmannafjölda eins og hér er að stefnt. Ég tel að það hefði vel mátt ná landi í þessu efni út frá skynsamlegum viðmiðunum varðandi landafræði og stærð kjördæma með því að haga þessu til með öðrum hætti. Svo tekin séu dæmi finnst mér að vissulega hefði komið til álita að Norðurlandið allt hefði verið innan eins kjördæmis af ýmsum ástæðum. Það er einn af þessum landsfjórðungum af fornu tali. Það er með öflugasta byggðasvæðið nálægt miðju sem nú er sett á endimörk kjördæmis samkvæmt þeim tillögum sem hér er um að ræða. Ég á að sjálfsögðu við Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið og ég hefði samt talið að þetta hefði komið til greina og það hefði auðvitað þýtt fjölgun á þingmönnum á þessum svæði, a.m.k. miðað við önnur kjördæmi sem minni væru.

Að því er snertir Austfirðingafjórðung svo ég noti nú fjórðungatalið aftur, hefði ég skilyrðislaust viljað halda Austurlandi sem einu kjördæmi áfram, fækka þar þingmönnum, jafnvel fækka þingmönnum frá núverandi horfi þó að það sé sárt. Ég hefði jafnframt talið koma vel til álita að stækka það kjördæmi í vesturátt ef gott samkomulag hefði mátt takast um það, þ.e. að við Austurlandskjördæmi bættist Vestur-Skaftafellssýsla sem svo var kölluð og er kölluð enn raunar þótt sýslur séu fallnar fyrir borð sem stjórnsýslueiningar í landinu, ef ekki öll Vestur-Skaftafellssýsla þá Skaftárhreppur, vegna þess að það er ekki mikil viðbót að því er snertir byggðarlög við Austurlandskjördæmi og það hefði bætt þarna nokkuð við íbúafjöldann þó ekki sé um fjölmennar sveitir að ræða og tryggt samstarf milli byggðarlaga sem eru að þróa með sér samstarf þar sem eru byggðarlögin í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu. Með þessari viðbót hefði mátt halda þarna fleiri þingmönnum en yrði í núverandi Austurlandskjördæmi einu.

Ég skal ekki út af fyrir sig tjá mig mikið um Vestfirðingafjórðung, Vesturland og Vestfirði sem kjördæmi. Það er ljóst að þar er alveg með svipuðum hætti allt of langt gengið hvað snertir landfræðilega stærð en að sumu leyti þó viðráðanlegra en Norðausturkjördæmið sem verið er að efna í þannig að það er ekki jafnfjarstæðukennd tillaga að því er mér virðist. Ég tek það þó fram að ég hef ekki lagt á það neitt endanlegt mat. En þegar þarna bætist við samkvæmt tillögunni sú hugmynd sem uppi er, að bæta við Norðurl. v., er náttúrlega alveg ljóst að menn eru komnir allt of langt en Vesturland og Vestfjarðakjördæmi sameinað er eitthvað sem hefði komið til álita jafnhliða því að Norðurlandið hugsanlega væri sem ein heild.

Síðan varðandi hugmyndina um að kljúfa höfuðborgina í tvennt, þá finnst mér hún síst skárri en hugmyndin um þessi stóru landfræðilegu kjördæmi. Mér finnst það alveg dæmalaus uppfinningasemi og hefði þó átt að vera nóg af fólki sem sat í nefndinni til þess að meta það mál af einhverju raunsæi. Hvaða vit er í því að ætla að fara að skipta höfuðstaðnum upp í tvö kjördæmi með gervimörkum til þess bara að búa til tvö hólf til að láta þetta módel nefndarinnar, sem lagt var upp með í byrjun, fá einhvern betri svip? Ég tel að það sé fráleit tillaga sem þarna er uppi og síst til bóta fyrir höfuðborgina, sem er alls góðs makleg í þessum efnum, og rökin fyrir henni séu nánast engin, það sé ekki nokkur leið að finna frambærileg rök fyrir þessari tillögu. Ég hef ekki heyrt þau. Ég heyrði að vísu ágætan fyrrverandi félaga minn, hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, verja tillöguna með rökum eða málflutningi sem mér fannst ekki vega þungt í þessum efnum, að þingmenn Reykjavíkur gætu tekið meiri þátt í málum í kjördæminu með því að skipta henni upp í tvö hólf. Þurfa þingmenn á þessu svæði ekki að setja sig inn í stöðu mála varðandi svæðið í heild? Hvað eru menn í rauninni að tala um? Ég á von á því að þegar Reykvíkingar fara að skoða þessi mál þá verði a.m.k. ekki klappað fyrir þessu alls staðar.

Virðulegur forseti. Ég tel að hvað snertir meginmál varðandi kjördæmaskipunina sé þessi tillaga ekki frambærileg og ég er henni andvígur og það þarf mikið að breytast í þessu máli ef ég ætti að styðja það.

Ég hef sagt það í sambandi við þetta mál að ég hefði talið eins og löngum áður að það sem menn hefðu átt að gera í þessum efnum er að búa til millistig í stjórnsýslunni, festa það í sessi, t.d. á grundvelli fjórðunga sem samstarfsvettvang og ef það hefði tekist hefði ég frekar valið að landið allt yrði eitt kjördæmi en sú tilaga sem hér er fram borin.