Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 15:58:21 (1366)

1998-11-19 15:58:21# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. ræðumaður orðaði það svo að hér hefðu flokkarnir hafið sig upp yfir dægursjónarmið og fundið lausn sem ég skynja að hv. þm. er bara mjög ánægður með. Mér finnst satt að segja hafa farið afskaplega lítið fyrir eða verið fljótlegt að reka Alþfl. til baka með það sem hann hefur verið að reyna að boða sem æskilega lausn í þessum efnum, þ.e. að landið allt verði eitt kjördæmi. Það tók ekki langan tíma að reka Alþfl. til baka með það eða fulltrúa þingflokks jafnaðarmanna. Og svo er allt í einu orðin kjörin lausn í staðinn að búa til þann óskapnað sem liggur fyrir í þessari tillögu, risakjördæmi sem vonlaust er fyrir þingmenn að gegna vegna landfræðilegrar stærðar og aðstæðna og því er haldið fram að þar séu líkur á að hver flokkur fái akkúrat þá frambjóðendur sem hann vill. Ætli það sé trygging fyrir því að alþýðuflokksmenn á Höfn í Hornafirði, ef einhverjir finnast, fengju sinn óskaframbjóðanda kjörinn sem kannski kæmi frá Eyjafjarðarsvæðinu? Ætli þekkingin á mönnum sé nú mikil þarna á milli.

Menn eru hér að búa til félagslegt módel sem gengur ekki upp og Alþfl. ætlar að bera fulla ábyrgð á því eða þingflokkur jafnaðarmanna og bræðingurinn sem er í uppsiglingu. Mér finnst þetta svo ömurleg magalending sem hefur orðið hjá fulltrúum Alþfl. og Alþb. í þessum efnum að hægt er að hafa um það stór orð. Síðan á að kóróna þetta með því að skipta höfuðborginni í tvennt. Rökin fyrir þessum málflutningi sem hér er hafður uppi og nú af talsmanni þingflokks jafnaðarmanna eru svo vesöl að mér finnst að þau dæmi sig í rauninni best sjálf.