Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:00:38 (1367)

1998-11-19 16:00:38# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. talar algjörlega í kross. Hann talar fyrst um það að Alþfl. hafi látið reka sig á gat strax í upphafi nefndarvinnunnar með landið sem eitt kjördæmi og látið reka sig til þess að setja á stofn stór og víðfeðm kjördæmi. Fer það ekki saman, virðulegi forseti, að landið sé eitt kjördæmi annars vegar og að kjördæmum fækki og þau stækki hins vegar? Fer þetta ekki í sömu átt? Ég hefði einhvern veginn haldið það, virðulegi forseti, að þetta gengi í svipaða átt.

Ég hef auðvitað ekkert leynt því, virðulegi forseti, að ég er kannski ánægðari en margur annar með þróun einmitt í þessa veru því að ég tel mikilvægt að þingmenn og kjósendur venjist stórum kjördæmum. Ég hef gjarnan sagt það sem svo, ég hef auðvitað skilning á því --- við vorum nú saman, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, í framboði forðum daga í kjördæmi hans, Austurlandi sem ef ég man rétt var samkvæmt vegakerfi 700 km enda á milli, (Gripið fram í: Nær 800.) nær 800, og ég er núna þingmaður kjördæmis sem er eitthvað innan við 100 km --- ég held þó og trúi því að hv. þm. með sína 7.000 kjósendur þar á kjörskrá hafi kannski meiri tækifæri en ég að ná beinu sambandi við kjósendur sína og við þau atvinnufyrirtæki sem í fjórðungnum eru en ég við mína 65.000 kjósendur og þann aragrúa atvinnufyrirtækja sem þar eru. Menn geta skoðað þetta frá ýmsum hliðum.

En meginatriðið er það, virðulegi forseti, sem ég vona að hv. þm. skilji þegar hann hugsar um það, að þessi aðalhugmynd Alþfl., sem er auðvitað í fullu gildi, fer mjög vel saman, og ég hef litið svo á að við séum að taka veigamikið skref í þá átt einmitt að einhvern tíma í framtíðinni, ég þori ekki að segja hvenær, renni þessi draumur upp og verði að veruleika.