Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:27:36 (1371)

1998-11-19 16:27:36# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. að þessu sinni en það er nauðsynlegt að alþingismenn allir eða sem flestir geri grein fyrir afstöðu sinni á þessu stigi málsins. Fram hefur komið að mjög mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál og reynt að finna málamiðlun sem meiri hluti Alþingis getur sætt sig við. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þessu og þótt ég telji frv. engan veginn alvont hef ég efasemdir um að það eigi eftir að verða að veruleika. Það er ekki nóg með að það þing sem nú situr þurfi að samþykkja þessar lagabreytingar, heldur þarf málið að koma aftur fyrir Alþingi á næsta þingi þar sem um er að ræða breytingu á stjórnarskrá landsins. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þegar allt kemur til alls séum við með tímaskekkju í höndunum. Sjálfur hef ég verið hlynntur því að hafa í landinu mörg kjördæmi og ekki hefur svokallað misvægi atkvæða raskað minni hugarró fremur en það hafi valdið mér hugarangri að Íslendingar hafa haft sama vægi og fjölmennari þjóðir, jafnvel milljónaþjóðir í erlendu samstarfi. Mér finnst röksemdir þeirra alþingismanna vega þungt sem benda á annars konar misvægi sem fólk, er býr fjarri höfuðstaðnum og stjórnsetrinu sem þar er, þarf að búa við.

[16:30]

Hins vegar er því ekki að leyna að í landinu er mikill þrýstingur á að jafna kosningarréttinn þannig að þingmenn hafi svipaðan fjölda atkvæða á bak við sig og ég er kominn á þá skoðun að það sé rétt að íhuga að stíga þá skrefið til fulls og gera landið að einu kjördæmi. En forsenda þess að slíkt yrði gert er að mínum dómi sú að gerðar yrðu róttækar breytingar aðrar í stjórnskipan og stjórnsýslu sem færðu fjárveitingar og ákvarðanatöku alla nær þeim sem búa á landsbyggðinni. Þetta er samtengt og óaðskiljanlegt að mínum dómi.

Ástæðan fyrir því að ég hef komist að þessari niðurstöðu er sú að það er mjög líklegt að farið verði út á þá braut að stækka kjördæmi og þá tapast ávinningurinn sem smá kjördæmi færa okkur, nefnilega sá að tiltekinn hópur alþingismanna hafi tök á að sinna vissum svæðum landsins, Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra o.s.frv. Sá ávinningur sem við höfum af hinu smáa kjördæmi tapast. En annað er að gerast samhliða þessari þróun og það er sú staðreynd að á undanförnum árum hefur verið að færast í vöxt að þingmenn Reykjavíkur líti á sig sem þingmenn og fulltrúa Reykjavíkur. Þetta var ekki í eins ríkum mæli fyrr á tíð. Þingmenn Reykjavíkur litu held ég allflestir á sig sem þingmenn þjóðarinnar allrar.

Mér finnst þetta ekki vera góð þróun. Mér finnst ákveðin rök fyrir því að þeir hlutar landsins sem eru sannarlega afskiptir hvað varðar tengslin við stjórnsýsluna hafi aukið vægi og meira vægi en þéttbýlissvæðin. En ef þessari röksemd er svipt brott þá finnst mér að það þurfi að íhuga málin í alveg nýju ljósi. Og það er af þessum sökum sem ég hef komist að þeirri niðurstöðu að við eigum að skoða málin alveg upp á nýtt og mun róttækar en hér er gert.

Tvö efnisatriði vil ég nefna og vekja máls á. Eitt lýtur að Reykjavíkurkjördæmi. Mér finnst algerlega óásættanlegt að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi. Ég tók eftir því að ég er engan veginn einn á báti með þessa skoðun. Þótt ekki kæmi fram afdráttarlaus afstaða hjá hæstv. forsrh. þá skildi ég það á hans máli að það bæri að íhuga rækilega röksemdirnar eða rökleysuna, svo ég noti mín eigin orð, sem hér kann að búa að baki, og ég vona að það verði gert þegar málin verða skoðuð til hlítar.

Ég vil vekja athygli á öðru. Mönnum verður tíðrætt hér um jöfnun atkvæðisréttar, um að jafna atkvæðisréttinn, um að hvert og eitt atkvæði vegi jafnþungt. En á sama tíma og menn segja þetta ætla þeir að taka tæplega 10 þúsund atkvæði, 10 þúsund kjósendur og gera þá algerlega áhrifalausa vegna þess að menn eru að setja skorður upp á 5%. Flokkar þar fyrir neðan, jafnvel þótt þeir komi rétt upp undir 5% markið, eiga engin áhrif að hafa, ekki að fá nokkurn mann kjörinn. Þar eru 10 þúsund kjósendur settir algerlega til hliðar og þeim ýtt út á kaldan klaka. Sömu menn og segja þetta tala um að jafna atkvæðisrétt. Hvers konar rökleysa er þetta?

Ég vil því beina því til þeirrar hv. nefndar sem kemur til með að skoða þessi mál að íhuga þetta tvennt sérstaklega. Skipting Reykjavíkur byggir ekki á neinum rökum. Þetta er eitt stjórnsýslusvæði, ef menn vilja horfa til þess, og engin rök eru fyrir því að skipta borginni upp í tvær einingar. Og einnig vil ég vekja athygli á því að þröskuldur upp á 5% sviptir í reynd 10 þúsund manns í landinu möguleika á að hafa áhrif inn á Alþingi.