Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:36:04 (1372)

1998-11-19 16:36:04# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það hjá hv. þm. að rétt er að vekja athygli á því að ekki ganga allar tillögur flutningsmanna í þá átt sem markmiðið er sagt vera og vafalaust er í fullri einlægni. Tillagan um að taka upp nýja hindrun fyrir því að fá þingmann kjörinn, sem er 5% lágmarksfylgi yfir landið allt, er auðvitað tillaga um að auka misvægi milli þeirra sem kjósa framboð sem fá fylgi minna en 5% og þeirra sem kjósa framboð sem fá fylgi upp á meira en 5%. Þarna er því gengið til öfugrar áttar miðað við markmið frv.

Það kemur líka fram í fylgiskjali með frv. að gert er ráð fyrir annarri breytingu sem líka gengur í öfuga átt, þ.e. að veita þeim kjósendum sem breyta framboðslistum meira atkvæðavægi en þeim kjósendum sem ekki breyta listunum. Það er gert til þess að auðveldara sé að breyta listum. Setjum sem svo að listi fá 1.000 atkvæði. 200 þeirra kjósa að strika út efsta mann listans. Það þýðir að efsti maður listans fær 800 atkvæði en annar maður listans fær 200 atkvæði í fyrsta sæti, eða fjórum sinnum minna. Engu að síður er niðurstaðan samkvæmt tillögu þeirra sem leggja þetta mál fram að þessir 200 hafi meira atkvæðavægi en hinir 800. Með öðrum orðum að atkvæðavægi þeirra sé a.m.k. fjórum sinnum meira en hinna sem kjósa listann óbreyttan.