Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:38:47 (1373)

1998-11-19 16:38:47# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar, frv. til stjórnarskipunarlaga, veldur mér vissulega töluverðum áhyggjum. Niðurstaða sú sem birtist í þessu lagafrv. ber með sér að þar er um að ræða mikla málamiðlun, málamiðlun allra stjórnmálaflokkanna í landinu. Einhverjum gæti vissulega dottið í hug að slík málamiðlun kynni vart góðri lukku að stýra eða að út úr henni kæmi niðurstaða sem mikil ánægja ríkti um. En hvað um það. Hér liggur fyrir frv. sem formenn allra stjórnmálaflokkanna flytja og þess vegna er mikilvægt að fjalla vandlega um frv. svo að hér geti farið fram rækileg umræða.

Það vekur athygli mína að einungis þrír af flutningsmönnum þessa frv. til stjórnarskipunarlaga hafa tjáð sig í umræðunni og sakna ég þess satt að segja að hafa ekki fengið tækifæri til þess að heyra afstöðu allra flutningsmanna frv. áður en ég tók til máls. Það eru stórpólitísk tíðindi þegar formenn allra stjórnmálaflokka flytja frv. saman og það hefði verið ástæða til þess að reikna með því að þeir skýrðu afstöðu sína rækilega strax við upphaf þessarar umræðu.

Formaður Alþfl. talaði í umræðunni og sú ræða vakti nokkra athygli mína og reyndar annarra einnig, eins og kom fram í andsvörum við ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þegar hann lét þess getið að þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá legði hann áherslu á það að stefna að niðurstöðu sem fæli í sér að landið yrði gert allt að einu kjördæmi. Og hv. 9. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson sem átti sæti í nefndinni sem vann að þessu, hefur gefið þær yfirlýsingar að þetta væri einungis skref, fyrsti áfangi á þeirri leið að gera landið allt að einu kjördæmi. Það er því á margt að líta þegar hugleitt er hvernig við eigum að taka á þessu frv. og hver hugur fylgir máli hjá þeim sem flytja það.

Þær breytingar sem hér eru ræddar eru byggðar á tillögum nefndar sem hefur unnið mjög merkilegt starf að mínu viti og það hefur verið talað mjög mikið og rækilega um það að þessi nefnd hafi unnið vel, að góður andi hafi ríkt innan nefndarinnar, eins og hér hefur komið fram í umræðum, og að þetta sé merkileg sameiginleg, samhljóða niðurstaða. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög hrifinn af þeim lýsingum. Ég hefði talið það miklu affarasælla fyrir niðurstöðu málsins að innan nefndarinnar færu fram umræður, að tekist væri á um sjónarmið en niðurstöðu náð þannig að við gætum sagt með sanni að ekki hefði aðeins ein rödd heyrst í þeim sölum þar sem fundað var og niðurstaða fengin. Mig grunar og mér finnst það mál sem hér er til umræðu bera það allt of mikið með sér að of lík sjónarmið hafi komið fram hjá nefndarmönnum sem unnu að þessu máli. (Gripið fram í: Það var valið í nefndina.)

Megindrifkraftur þeirra breytinga sem boðaðar eru í frv. er annars vegar krafan --- og ég undirstrika það --- héðan af höfuðborgarsvæðinu um fjölgun þingmanna á þessu svæði til þess að vinna að hagsmunamálum höfuðborgarsvæðisins. Þetta er annar megindrifkrafturinn sem stendur að baki þessum breytingum. Hinn drifkrafturinn er svo krafan, eins og ég nefndi áðan, um að landið verði allt eitt kjördæmi.

Ef við lítum nú aðeins á þessi grundvallaratriði, þessi meginsjónarmið sem liggja að baki breytingunum sem nefndin lagði til og formenn stjórnmálaflokkanna hafa lagt upp með sem grunn sinnar tillögu, þá verð ég að segja alveg eins og er að ég held að landið sem heild þurfi á ýmsu öðru fremur að halda en því að fjölga þeirri sveit sem vinnur að því daglega að hlúa að hagsmunum höfuðborgarsvæðisins.

Og hvað varðar það að gera landið allt að einu kjördæmi þá tel ég að það væri afskaplega óskynsamleg niðurstaða vegna þess að sú hætta felst í því fyrirkomulagi að miðstýring yrði mikil hvað varðaði framboð á vegum flokkanna, að mikil miðstýringarárátta yrði þar að baki annars vegar, og svo hins vegar það að litlar líkur væru á því að þeir þingmenn sem þannig yrðu valdir teldu sig þurfa miklum skyldum að gegna langt frá þinghúsinu. Þetta hafa aðrir þingmenn rætt hér þannig að ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

[16:45]

Aðrar forsendur fyrir breytingunum en þessir tveir meginkraftar sem ég tel að hafi legið að baki og koma fram í áliti nefndarinnar eru að mínu mati fjarri því að vera mikils háttar eins og það atriði að það beri að einfalda kerfið eða að nauðsynlegt sé að fjöldi þingsæta í kjördæmum verði sem jafnastur, enda liggur það fyrir að í 1. gr. frv., og mun ég koma betur að því á eftir, er strax gengið gegn þessu sjónarmiði, þ.e. að stefna skuli að sem jöfnustum fjölda þingmanna í kjördæmum. Í 1. gr. frv. um stjórnarskipunarlögin segir að þingmenn skuli vera 63 en fimm kjördæmakjörnir í hverju kjördæmi og sú hætta er fyrir hendi að innan tíðar verði einungis fimm þingmenn í fámennustu kjördæmunum. Hvað verða þá margir í öðrum og hversu mikill ójöfnuður verður þá á milli fjölda þingmanna í kjördæmum?

Breytingar á kjördæmaskipuninni eru auðvitað nátengdar því viðfangsefni að skipa málum stjórnsýslunnar þannig að hún gagnist landsmönnum sem best og að skipulagið sé þannig úr garði gert að þingmenn geti unnið að hagsmunamálum kjördæmanna. Í þessu samhengi verða menn að muna að þrátt fyrir aðskilnað löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins er með kosningum til Alþingis verið að kjósa framkvæmdarvaldið óbeint, það vald sem situr í höfuðborginni og eðlilega deilir og drottnar í skjóli þingsins. Aðgangurinn að framkvæmdarvaldinu er því mikilvægur hluti þess þegar rætt er um starf þingmanna og fjölda þeirra í einstökum kjördæmum.

Í nágrannalöndum okkar, svo sem í Noregi, er það viðurkennt að sami fjöldi þingmanna geti ekki verið í öllum kjördæmum þrátt fyrir mismunandi fjölda íbúa. Í áliti nefndarinnar vantar að mínu mati allan rökstuðning fyrir því að ekki skuli gengið til enda í svokallaðri jöfnun atkvæðisréttar. Ég tel að þar sem íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi rétt á að heyra rækilegan rökstuðning fyrir því að það skuli vera munur þá þurfi íbúar landsbyggðarinnar einnig að heyra þann rökstuðning.

Að mínu mati er allra mikilvægast þegar verið er að skipuleggja það kerfi sem notað er til að velja þingmenn og skipuleggja kjördæmin að sjá til þess að fjöldi þingmannanna endurspegli fylgi flokkanna. Þetta er að mínu mati algert grundvallaratriði, þ.e. að fylgi flokkanna og þau sjónarmið sem þeir standa fyrir endurspeglist rétt í þinginu.

Þegar við reynum að gera okkur grein fyrir því hvað réttlæti þá skipan að hafa mismunandi marga þingmenn í kjördæmum og þar af leiðandi nokkurt misvægi er í mínum huga aðalatriði að menn átti sig á því hvert verkefni þingmanna sé. Ef við stillum málinu þannig upp að við séum að ráða menn til starfa --- það má líkja því við það að ráða áhafnir á skip --- þá hljótum við að hafa fjöldann í samræmi við þau verkefni sem við teljum að þurfi að vinna. Það eru mismunandi verkefni sem þarf að vinna í kjördæmunum. Það eru annars konar viðfangsefni og tímafrekari verkefni sem þarf að vinna í kjördæmum sem eru mjög landstór og hafa margar samfélagseiningar, margar byggðir sem þarf að vinna fyrir en í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta tel ég að sé meginrökstuðningurinn og meginástæðan fyrir því að okkur finnst eðlilegt að mismunur sé þarna á milli og að það komi fram í mismunandi atkvæðavægi. Ég lít svo á að við getum ekki ýtt þessu til hliðar vegna þess að þetta er aðalatriði málsins, þ.e. hvert er viðfangsefnið sem þingmönnum er ætlað.

Ég hef leyft mér að gagnrýna þessar tillögur nokkuð og það frv. sem hér hefur komið fram frá formönnum stjórnmálaflokkanna. Auðvitað þarf að ná pólitískri lendingu í þessum málum eins og öllum öðrum, en ég tel að í meðförum þingsins þurfi að líta á alveg sérstaka þætti í frv. Í 1. gr. frv. til stjórnarskipunarlaga segir í 3. mgr., með leyfi forseta:

,,Í hverju kjördæmi skulu vera minnst fimm kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.``

Það sem hér er verið að segja er að sú breyting er lögð til á stjórnarskránni að fastsetja skuli þennan lágmarksfjölda, fimm þingmenn í hverju kjördæmi, en síðan megi breyta og bæta við, fjölga og fækka niður að þessum mörkum með löggjöf, með kosningalögum, þannig að við getum átt það á hættu að innan tíðar og fyrirvaralítið verði gengið til þess verks að jafna algerlega út hið svokallaða atkvæðavægi enda segir í athugasemdum við einstakar greinar frv. um 1. gr., með leyfi forseta:

,,Í 5. mgr. er komið að því nýmæli sem ætlað er að koma í veg fyrir að misvægi atkvæða fari fram úr 1:2 ...``

Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga. Ég tel eðlilegt að hafa þarna viss mörk, en síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þar er lagt til að tekin verði upp sú regla að landskjörstjórn skuli breyta fjölda þingsæta í kjördæmum ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, verða eftir alþingiskosningar orðnir helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi. Jafnframt er heimilað að útfæra þessa reglu nánar í lögum og er tillaga um það gerð í 4. gr. fylgiskjals I. Tekið skal fram að hér er einungis gerð tillaga um hámark atkvæðamisvægis á milli einstakra kjördæma. Þar með er ekkert því til fyrirstöðu að dregið verði enn frekar úr atkvæðamisvæginu í kosningalögum, innan þeirra marka sem 2. og 3. mgr. þessarar greinar setja.``

Ég tel að hér sé verið að leggja til mjög mikið grundvallaratriði, þ.e. að hægt verður með lögum, sem þarf reyndar að afgreiða hér með 2/3 hluta atkvæða, að jafna algerlega út, niður að þeim mörkum að fimm þingmenn verði í hverju kjördæmi. Ég er ekki að segja að það standi til eins og nú háttar í þinginu sem betur fer. En með því að gera þessa breytingu á stjórnarskránni er verið að gera það auðveldara að ná því markmiði sem við heyrum m.a. frá fulltrúum Alþfl. í umræðunni að stefnt er að, þ.e. að jafna eigi algerlega þennan svokallaða mun á atkvæðavæginu. Og það þýðir á mannamáli að verið er að fækka þingmönnum, t.d. í því Norðvesturkjördæmi sem gerð er tillaga um að tíu þingmenn verði í, úr tíu niður í sjö í einu vetfangi og ef íbúaþróun verður mjög óhagstæð sjáum við hvað getur gerst. Það er verið að ryðja burtu öllum þeim þröskuldum sem þarna eru til staðar og eru til staðar núna.

Þetta vildi ég, herra forseti, gera að sérstöku umræðuefni og vekja athygli á þessu vegna þess að ég tel að þegar við breytum stjórnarskránni þá sé það mjög alvarleg aðgerð og ef sú hætta vofir yfir að sú breyting skapi losaralegri framkvæmd á kjördæmamálum og kosningalögum þá hef ég verulega miklar áhyggjur.

Ég vænti þess, herra forseti, að frv. fái rækilega skoðun í þeirri sérnefnd sem hefur verið skipuð og vænti þess að þar megi ná einhverri niðurstöðu sem menn geta sæst betur á en það frv. sem hér er til umfjöllunar.