Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:16:53 (1375)

1998-11-19 17:16:53# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég tel að þetta mál sé eitt mikilvægasta mál Alþingis. Atkvæðisrétturinn er grundvallarréttindi borgaranna enda stjórnarskráratriði. Til þess að verðfella ekki mannréttindahugtakið vil ég ekki taka mér í munn að atkvæðisréttur sé mannréttindi en hann er mjög nærri því. Tek ég þar undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni sem gat um það áðan að það væri útþynning á mannréttindahugtakinu að taka inn í það sífellt fleiri og fleiri réttindi.

Herra forseti. Þróun atkvæðisréttar hefur verið með þeim hætti að einu sinni hafði kóngurinn eða keisarinn einn atkvæðisrétt. Þótti honum það gott en öðrum ekki. Síðan fékk aðallinn, sem naut ýmissa forréttinda, kosningarrétt en aðrir ekki. Svo fengu eignamenn kosningarrétt, yfirleitt karlmenn. Síðan fengu allir karlmenn atkvæðisrétt. Að lokum fengu konur atkvæðisrétt líka. Þetta er þróunin í stuttu máli.

Herra forseti. Ég tel að hvorki kyn, efnahagur né búseta eigi að hafa áhrif á atkvæðisrétt fólks. Hver fullveðja einstaklingur á að hafa eitt atkvæði og um það eigi menn ekki að þurfa að ræða.

Herra forseti. Þeirri spurningu hefur verið varpað upp hvort hv. alþingismenn geti fjallað um þetta mál sem slíkt þar sem það varðar þá svo mikið sjálfa persónulega. Eru þeir óháðir til að fjalla um mál eins og atkvæðisrétt sem skiptir þá öllu máli sjálfa? Þetta er spurning sem ég vil varpa upp. Hvort ekki hefði verið nær að kjósa stjórnarskrárnefnd eða kjördæmisnefnd til að fjalla um þetta mál og taka um það afstöðu sem þjóðin gæti svo greitt atkvæði um. Ég er ansi hræddur um að það kæmi og hefði komið önnur niðurstaða út úr slíkri vinnu en við sjáum hér fyrir okkur. Það er nefnilega þannig að margir hv. þm. sjá fyrir sér að þeir detti út við þessar breytingar en aðrir styrkjast og þurfa síður að óttast um sín þingsæti. Þetta hefur óneitanlega mikil áhrif á hvern og einn hv. þm. Hugmynd eins og fækkun þingmanna er ekki til umræðu, vegna þess að það varðar þingmenn sjálfa. Sem betur fer hafa menn ekki getað fjölgað þingmönnum þar sem þingsalurinn leyfir það bara praktískt séð ekki.

Herra forseti. Fyrirliggjandi frv. felur í sér ýmsa tæknilega kosti. Það er í fyrsta lagi 5% mörkin, sem eru mjög skýr og koma í stað óljósra marka sem helgast af því að áður þurfti listi að fá kosinn mann í einhverju kjördæmi til að koma manni yfirleitt að. Þessi 5% mörk eru mjög víða í gildi og eru til þess að koma í veg fyrir stjórnleysi, þ.e. að of margir ósamstæðir flokkar komi manni að en geti erfiðlega unnið saman. Svo má ákveða fjölda þingmanna og stærð kjördæma að einhverju leyti með 2/3 atkvæðavægi frá Alþingi og gera það með lögum, þannig að ekki þarf lengur eins þunga aðgerð og að breyta stjórnarskránni. Og ég tek undir þá breytingu sem gerð er með útstrikanir, að gera kjósendum auðveldara að hafa áhrif á lista. Það hefur verið gagnrýnt mjög mikið, að í rauninni hafi það engin áhrif þó að mjög stór hluti kjósenda striki út af lista. Ég held því að þetta sé til bóta og kemur kannski að einhverju leyti í stað prófkjöra sem menn hafa stundað. Það er að koma í ljós núna á síðustu mánuðum að þau geta haft í för með sér ákveðna mjög alvarlega galla. En þrátt fyrir það tel ég að prófkjör séu góð.

Í frv. liggur líka fyrir tvíklofning Reykjavíkur. Það er náttúrlega ný staða sem við þingmenn Reykjavíkur og kjósendur í Reykjavík þurfum að horfast í augu við. En ég vil benda á að við höfum haft furðuleg kjördæmi áður, eins og Mosfellsbæ, sem var í sama kjördæmi og Kópavogur og lá þó kjördæmi þar á milli. Við höfum haft Seltjarnarnes sem er eiginlega úthverfi Reykjavíkur, og Kópavog sem liggur hér alveg að Reykjavík, þannig að kjósendur eru svo sem ýmsu vanir og ég held að þetta verði þeim ekki til mikilla vandkvæða. En markmiðið á bak við þetta er að þessi sex kjördæmi verði öll mjög svipuð að stærð til að minnka aðra ókosti sem eru fólgnir í því ef kjördæmi eru mjög misstór.

Herra forseti. Um þetta frv. hefur verið mikill ágreiningur. Sumir telja að nota eigi atkvæðavægi til að bæta fólki upp önnur kjör, eins og að búa langt frá stjórnsýslunni, að hafa færri atvinnutækifæri, að hafa ekki eins fjölbreytt menningarlíf o.s.frv. Ég tel að sú umræða sé á villigötum. Það hefur verið mikill ágreiningur um þetta, kannski líka vegna þess að sumir þingmenn óttast að þeir nái ekki kjöri með þessum nýju reglum. Ég tel samt sem áður að sú breyting að minnka atkvæðamisvægið sé minna misrétti þannig að þessi breyting er góð sem slík. Hún bætir stöðuna sem hefur verið mjög slæm þó að ég sé ekki alsáttur við hana vegna þess að hún lagar ekki alveg atkvæðamisvægið.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka hv. þm. Friðriki Sophussyni fyrir afburða gott starf. Ég held að hann hafi unnið starf í kyrrþey sem kannski fæstir viti af hversu gott er. Ég vil þakka allri nefndinni fyrir að hafa tekist á við þennan ágreining sem hlýtur að hafa verið mjög mikill. Ég held að mjög fáir séu alveg sáttir við þá niðurstöðu sem hér er fengin. En hins vegar held ég að þetta sé ákveðin málamiðlun sem flestir geti sætt sig við og ég get sætt mig við. Ég tel að þetta frv. sé til bóta þó það gangi ekki eins langt eins og ég vildi í því að jafna atkvæðisréttinn og því styð ég þetta frv.