Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:25:15 (1376)

1998-11-19 17:25:15# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:25]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu mál sem vafalaust mun hæst bera í þingstörfum í vetur, þ.e. mjög róttækar breytingar á ákvæðum stjórnarskrárinnar um kjördæmaskipan og þingmannafjölda í einstöku kjördæmi, auk þess sem ráðgert er að fylgja því líka eftir með verulegum breytingum á lögum sem fjalla um kosningar.

Það er rétt að fara yfir helstu atriði frv. við 1. umr. þess. Ég vil fyrst vekja athygli á því að þessi breyting verður ekki borin undir kjósendur. Það er fyrsta atriðið sem rétt er að hafa í huga þegar menn meta þetta mál, að flutningsmenn þess, þeir sem að því standa, vilja ekki bera þetta mál beint undir kjósendur, svo mikið réttlætismál sem það þykir vera. Þvert á móti er málið lagt fram á Alþingi og verður ekki sjálfstætt mál gagnvart kjósendum.

Í alþingiskosningunum verður tekist á um ýmis mál, ekki bara breytingar á þessum lögum heldur öðrum pólitískum viðfangsefnum, þannig að þetta mál sem hér er til umræðu verður ekki á kjörseðlinum í næstu alþingiskosningum þegar kjósendur verða spurðir um hvað þeir vilja í þessum efnum. Þeim mun því ekki gefast kostur á að svara því með skýrum hætti hver afstaða þeirra er til þessara breytinga. Og þeir verða ekkert spurðir sérstaklega að því. Það er rétt að hafa í huga, herra forseti, að þessi breyting sem meint er að gera verður ekki borin undir vilja kjósenda.

Það verður heldur ekki möguleiki á því fyrir kjósendur að sýna afstöðu sína óbeint með því að velja þá stjórnmálaflokka sem styðja þeirra sjónarmið og hafna hinum, vegna þess að forustumenn allra stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi hafa sameinast um að flytja málið. Það er því einfaldlega ekki hægt að finna stjórnmálaflokk sem nær máli, a.m.k. miðað við síðustu kosningar, sem ekki á beina aðild að þessu máli í gegnum forustumann sinn. Þannig hefur forustumönnum stjórnmálaflokkanna tekist að leggja málið fyrir og tryggja því málmeðferð sem kemst fram hjá kjósendum. Það er rétt að undirstrika þennan þátt málsins, að kjósendur verða ekki spurðir um hvernig þeir vilji hafa þessa hluti, og þeir hafa ekki verið spurðir um það heldur eru það forustumenn flokkanna sem hafa komið sér saman um það.

Annað er rétt að undirstrika, að breytingin sem hér er lögð til er ekki sérstakt samkomulag til að eyða ósamkomulagi um þessa skipan mála og tryggja að friður ríki um þau í náinni framtíð. Það er víðs fjarri. Það er þegar upplýst í upphafi umræðunnar af formanni Alþfl. að hann lítur ekki á þessa tillögu sem niðurstöðu sem eigi að styðja í náinni framtíð heldur áfanga á leið sem verður haldið áfram að vinna að strax og þessi nýja skipan hefur tekið gildi, ef hún nær fram að ganga. Með öðrum orðum, einn stjórnmálaflokkurinn ætlar ekki að standa að því að um þessa skipan mála ríki samkomulag. Þannig að við erum ekki að fara frá ósamkomulagi til samkomulags heldur er verið að fara frá ósamkomulagi til ósamkomulags. (Forsrh.: Það er nú fullmikið sagt.) Það er ekki fullmikið sagt, herra forseti, því að formaður Alþfl. hlýtur að teljast nokkuð veigamikill aðili að þessu máli, og yfirlýsingar hans liggja hér fyrir.

[17:30]

Í öðru lagi kemur það fram í þingmálinu sjálfu að það byggist á því að sú skipan mála sem lögð er til standi ekki nema skamma hríð. Byggt er inn í frv. ákvæði þannig að hægt sé að breyta verulega skipan mála frá því sem þarna er lagt til, kjördæmaskipan og þingmannatölu. Það er augljóst í huga þeirra sem flytja málið að þessi skipan mála með sex kjördæmi, þar sem þrjú þeirra hafi 10 þingmenn og þrjú þeirra 11 þingmenn, á ekki að standa nema örskamma stund. Þeim er það svo ljóst að þeir setja ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að Norðvesturkjördæmið standi örugglega ekki með þá þingmannatölu sem lagt er til í næstu alþingiskosningum eftir þarnæstu kosningar. Ákvæði til bráðabirgða er einungis sett til þess að tryggja að í næstu kosningunum á eftir þeim sem verða í vor verði ekki örugglega 10 menn í Norðvesturkjördæminu heldur níu. Því að ef þetta ákvæði til bráðabirgða væri ekki sett yrðu 10 þingmenn í Norðvesturkjördæminu í fyrstu kosningunum samkvæmt nýju skipaninni. En með ákvæði til bráðabirgða verða þeir líklega orðnir níu. Þeir sem flytja málið gera ráð því fyrir því að það breytist strax.

Síðan er innbyggt í 1. gr. frv. ákvæði sem hefur í för með sér að það er hægt að fækka þingmönnum niður í fimm í einstökum kjördæmum. Tekið er fram í greinargerð að ekki eigi að skilja ákvæði 1. gr. þannig að það eigi bara að gera breytingar ef atkvæðamisvægi fer yfir 1:2, heldur segir í greinargerð á bls. 10, með leyfi forseta:

,,Tekið skal fram að hér er einungis gerð tillaga um hámark atkvæðamisvægis á milli einstakra kjördæma. Þar með er ekkert því til fyrirstöðu að dregið verði enn frekar úr atkvæðamisvæginu í kosningalögum, innan þeirra marka sem 2. og 3. mgr. þessarar greinar setja.``

Með öðrum orðum er upplýst að samkomulagið felur ekki í sér að það eigi að vera 10 þingmenn að jafnaði í landsbyggðarkjördæmunum heldur er sagt skýrt frá því að menn geti ákveðið að jafna atkvæðamisvægi enn frekar en gert er ráð fyrir og þurfi þar af leiðandi ekki neinar sérstakar stjórnarskrárbreytingar til þess að gera það eftir að þetta frv. hefur náð fram að ganga. Þar með er það einfaldlega bara lagabreyting sem þarf til.

Þessi niðurstaða um atkvæðamisvægi upp á 1:1,8 er bara bráðabirgðaniðurstaða. Hvenær sem er geta menn ákveðið að hafa þetta lægra hlutfall og geta hrint því í framkvæmd með einföldum lagabreytingum hér að ná því fram. (Gripið fram í: Það þarf 2/3.) Það getur þurft 2/3 atkvæða hér á Alþingi, það er rétt, til þess að fækka þingmönnum í kjördæmi. En ég kalla það einfaldar lagabreytingar af því ég á við að þarf ekki að gera breytingar á stjórnarskránni.

En það er rétt að menn hafi þetta í huga vegna þess að það mætti ætla þegar menn horfa á tillöguna um hvaða kjördæmi verða til og hversu margir þingmenn í hverju þeirra, að þetta væri samkomulag sem flokkarnir hefðu komist að niðurstöðu um og ætti að standa í einhverri náinni framtíð, 10 ár, 20 ár eða svo. Staðreyndin er nefnilega sú að það er ekki. Þetta er einungis það sem á að vera þar til búið er að afgreiða málið. Hvað svo vitum við ekki. Við vitum bara að menn áskilja sér rétt að breyta þessu strax að loknum næstu kosningum, breyta markmiðunum um atkvæðamisvægi og jafnvel áskilja sér rétt til að standa ekki að þessari niðurstöðu og halda áfram að vinna á þann veg að grafa undan henni. Við erum því ekki að vinna frið um skipan mála með þessu samkomulagi. Það finnst mér grundvallaratriði að menn geri sér ljóst þegar verið er að gera samkomulag um mál sem deilt hefur verið um í þjóðfélaginu að það sé samkomulag sem þeir sem að því standa ætli sér að virða og hafa í heiðri um eitthvert árabil en það er því miður ekki svo.

Þessi breyting hefur hins vegar í för með sér að þingmenn fámennu landsbyggðarkjördæmanna hafa enga stöðu á Alþingi til þess að hafa áhrif sem neinu nemur á breytingar eftir að þessi hefur náð fram að ganga. Það er einfaldlega þannig. Það er verið að afvopna dreifbýlisþingmennina með þessu frv.

Ég vil svo líka benda á að skipan kjördæmanna er ekki öll mjög skynsamleg. Ég bendi á Reykjaneskjördæmi sem á að skipta upp í tvennt, annar hluti þess á að renna undir Suðurkjördæmi og hinn hlutinn á að mynda svonefnt Suðvesturkjördæmi. Í ljósi þess að í tillögum nefndarinnar sem undirbjó þessar tillögur er grundvallaratriði að kjördæmi sé landfræðileg heild að þá vekur undrun hvernig Suðvesturkjördæmið er saman sett. Það er saman sett úr fjórum landfræðilega aðskildum svæðum.

Það er í fyrsta lagi Hafnarfjörður, Garðabær, Bessastaðahreppur og Kópavogur, sem eru eitt svæði. Annað svæðið er Seltjarnarneskaupstaður, þriðja svæðið er Mosfellsbær og fjórða svæðið er Kjósarhreppur. Ef menn á annað borð eru að hugsa um að draga upp nýjar línur á höfuðborgarsvæðinu og endurskipuleggja það í kjördæmi og leggja það til grundvallar að kjördæmið sé landfræðilega samanhangandi eins og gert er að öðru leyti verða menn auðvitað að taka þessa tillögu upp. Ég hefði talið eðlilegast að líta þá á höfuðborgarsvæðið sem eina heild og skipta því upp í þrjú kjördæmi sem væru samfelld hvert um sig. En ég hygg að það hafi ráðið afstöðu nefndarinnar að hún hefur talið að það mætti of mikilli andspyrnu þeirra sem búa á þessu svæði. Kannski er það rétt. En þá má rifja það upp, sem hefur komið fram í umræðunni, að tillögur nefndarinnar hvað varðar landsbyggðarkjördæmin mæta mikilli andspyrnu og er lítið með það gert engu að síður.

Áhrifin af þessari tillögu sem hefur það markmið að jafna atkvæðavægi, jafna styrk á milli kjördæma, sem eru út af fyrir sig ágæt markmið, eru þau í fyrsta lagi að það mistekst að jafna styrk á milli kjördæma af því það mun ganga strax í sundur og er gert ráð fyrir því í þingmálinu þannig að misvægið eykst fljótlega milli þeirra, þingmönnum fækkar í einu kjördæminu og fjölgar í öðru. Á einhverju árabili fer þetta að líkjast því sem við þekkjum í dag að það getur verið kominn tvöfaldur fjöldi þingmanna í einu kjördæmi miðað við það fámennasta. Þá hefur mistekist að ná því markmiði að hafa svipaðan fjölda þingmanna í hverju kjördæmi sem ég tel hins vegar vera ágætismarkmið.

Þessi skipan mála með svona stórum kjördæmum og fáum hefur í för með sér að auka vald flokksforustu. Hún eykur vald flokksforustu, sérstaklega á Alþingi. Af því hér eru inni formaður og varaformaður Sjálfstfl. þá skulum við líta á hvernig þetta lítur út gagnvart Sjálfstfl. Tökum kjördæmin þrjú sem eiga að mynda Norðvesturkjördæmi, Vestfirði, Vesturland og Norðurland vestra. Í þessum kjördæmum hverju um sig er oddviti sjálfstæðismanna, þrír menn sem allir verða að teljast nokkuð áhrifamiklir þingmenn inni í þingflokki Sjálfstfl. og styðjast við sterka sveit í kjördæmi sínu og sækja styrk sinn þangað. Ég hygg að þegar þessir þrír þingmenn leggja saman þá hafi þeir töluverð áhrif í þingflokki Sjálfstfl.

Eftir að þessi breyting nær fram að ganga verða þetta ekki þrír þingmenn Sjálfstfl., sem eru oddvitar hver í sínu kjördæmi, heldur bara einn. Hinir tveir eru orðnir þingmenn númer 9 og 10 fyrir Sjálfstfl. í Reykjavík og styrkja stöðu oddvita flokksins í Reykjavík. Breytingin hefur því styrkt stöðu oddvita flokksins í Reykjavík en veikt stöðu flokksins á landsbyggðinni. (Forsrh.: Það verða tveir oddvitar í Reykjavík.) Það gætu meira að segja orðið tveir oddvitar í Reykjavík og þá hefur hún enn frekar styrkst. (Félmrh.: Það er nú of seint í rassinn gripið fyrir Friðrik.) Það er því ljóst að staða flokksforustunnar styrkist en staða þingmanna sem styðjast við styrk úti í kjördæmum hlýtur að veikjast.

Hér á dögunum var prófkjör hjá Sjálfstfl. í Reykjanesi og við sáum líka út úr því prófkjöri ákveðna breytingu sem mun að sjálfsögðu verða, að mínu mati, í þessum stóru kjördæmum. Hverjir komast áfram í pólitíkinni í þessum stóru kjördæmum? Það verða þeir frambjóðendur sem búa á stóru stöðunum í kjördæmunum. Hvaða frambjóðendur náðu góðum árangri í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjanesi? Það voru frambjóðendur úr Kópavogi og Hafnarfirði. Frambjóðendur á Suðurnesjum náðu ekki þeim árangri sem þeir höfðu ætlað sér og vonast eftir. Ég hygg að svona verði það líka í þessum stóru kjördæmum.

Við skulum skoða Norðausturkjördæmi. Þar hefur Eyjafjörðurinn yfirburðastöðu gagnvart Austfjörðunum og í prófkjöri þá munu þeir frambjóðendur sem ekki eiga drjúgan stuðning í Eyjafirði ekki geta búist við góðum úrslitum í því. Það má segja að Austurland verði hálfgerð annexía fyrir Eyjafjörðinn í þessum skilningi. Það verður því ekki lengur þannig að t.d. framsóknarmenn á Austurlandi, sem eru mjög sterkir í því kjördæmi, ráði því hvaða menn komi í framboð fyrir það landsvæði. Það verða framsóknarmenn í Eyjafirði sem munu fyrst og fremst ráða því. Þetta mun þýða að þingmannasveitin í framtíðinni mun breytast þannig að menn koma bara úr stærstu stöðunum. Þeir sem búa á minni stöðunum munu ekki eiga nokkurn möguleika.

Ég vil svo, herra forseti, segja það að lokum af því að mikil áhersla hefur verið lögð á það að ekki mætti fjölga þingmönnum af einhverjum ástæðum, kannski af því að það sé of mikill kostnaður eða menn vilji það ekki. (Gripið fram í: Eða plássleysi.) Eða plássleysi. Það má nú byggja nýtt hús, það hefur ekki vafist fyrir mönnum. En í þessu frv. er ekki að sjá að kostnaðurinn sé neitt atriði sem haldi vöku fyrir mönnum. Lagt er til að menn geti ráðið sér aðstoðarmenn. Það var nefnt fyrr í umræðunni að það kerfi gæti kostað um 100 milljónir á ári. Það er svipað og 25 þingmenn kosta þannig að í raun er verið að fjölga um 25 menn en ekki með atkvæðisrétti. Er þá ekki betra til að hafa meira jafnvægi í hlutunum þannig að fleiri geti átt fulltrúa að fjölga þá lítils háttar þingsætum en að standa í þessu bitlingakerfi, herra forseti?