Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:45:46 (1377)

1998-11-19 17:45:46# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:45]

Flm. (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú satt best að segja dálítið undarlegt af landsbyggðarþingmanni að finna að því að verið sé að auka aðstoð við þingmenn úti á landi. Þingmenn hafa fengið á undanförnum 20 árum, frá því að ég var þingfréttaritari hér uppi, gríðarlega aukna aðstoð. Ekki einn mann, ekki tíu menn heldur tugi manna, kannski 60--70 manns sem aðstoða þingmenn hér --- með einum eða öðrum hætti eins og sagt er --- sem ekki var áður. Og þeir eru allir staðsettir í Reykjavík.

Síðan kemur þessi ágæti landsbyggðarþingmaður, sem ég ber virðingu fyrir, og finnur að því að eitthvað af slíkri aukinni aðstoð, sem er auðvitað að aukast eins og við höfum séð, verði staðsett fyrir þingmenn úti á landi. Ég sem þingmaður Reykvíkinga sé ekki ofsjónum yfir því. Mér finnst það gott, mér finnst það bara mjög gott að það geti gerst á þann hátt.

Hv. þm. nefndi líka að ef gólfið, sem sett er, færi að mæla --- ég held það fari niður fyrir fimm þingmenn í kjördæmi --- menn eru farnir að taka það gólf, þetta lágmark sem sett er, sem neikvæðan þátt, sem er auðvitað fráleitt, og að þetta kerfi hafi þá mistekist. Ef við förum niður í þetta gólf, ef við lendum þar, þá hefur nú margt annað mistekist hjá okkur. Þá hefur byggðapólitíkin algjörlega mistekist og þá er landið þegar búið að sporðreisast gríðarlega. Og það vil ég segja við hv. þm. að ef við hefðum ekki gert neinar breytingar á kjördæmaskipaninni, en þróunin væri sú að þetta fimm þingmanna lágmark væri farið að mæla, hvernig haldið þið að andrúmsloftið hjá þjóðinni út af kjördæmaskipaninni væri þá orðið?

Síðan segir þingmaðurinn að fyrstu þingmönnum í kjördæmi muni fækka og þess vegna muni vald flokksforustunnar aukast. Í Bretlandi hefur Blair 400 þingmenn sem eru þingmenn sinna kjördæma. Ég hef ekki séð það þvælast fyrir valdi flokksforustunnar þar eða formannsins. Menn geta ekki dregið ályktun af þessu tagi. Ólafur Thors, formaður þess flokks sem hv. þm. talaði um hér áðan, var þingmaður úr Gullbringusýslu, ekki úr Reykjavík. Ekki sá ég að það drægi neitt úr áhrifamætti formanns þess flokks nema síður væri. Menn geta ekki dregið ályktanir af þessu tagi, og alls ekki það að með því að hafa skipan mála þannig að 2/3 þingmanna geti gert ákveðnar breytingar þá sé líklegt að þéttbýlisþingmenn fari að trampa á dreifbýlisþingmönnum. Sá andi er sem betur fer ekki í þinginu og má aldrei verða.