Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:50:17 (1379)

1998-11-19 17:50:17# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Flm. (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég náði ekki að svara áðan öðru atriði sem hv. þm. nefndi varðandi það að þéttbýlisstaðirnir mundu ráða öllu um hverjir væru í framboði. Er þetta nú örugglega rétt? Heldur hv. þm. t.d. að eftir sameiningu Norðausturkjördæmis yrði Halldóri Ásgrímssyni nokkur skotaskuld úr því að verða efsti þingmaðurinn í kjördæminu þó að Eyfirðingarnir væru þar? Það er farið eftir mönnum en ekki þéttbýli.

Ég tek dæmi af mínum flokki á Suðurlandi. Ingólfur Jónsson var þar löngum í forustu. Hann kom frá Hellu, tiltölulega litlu byggðarlagi, ekki Selfossi, ekki Vestmannaeyjum. Það er því ekki hægt að fullyrða neitt með þessu móti. Þetta fer eftir mönnunum. Auðvitað getur stundum, eins og gerðist í prófkjöri nú í Reykjaneskjördæmi, komið upp einhver slík byggðakeppni, rétt bara eins og í fótboltanum. En til lengri tíma horft munu mennirnir sem í framboði eru ráða þar mestu. Ekki hvaðan þeir koma.