Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:51:15 (1380)

1998-11-19 17:51:15# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki viss um að hæstv. forsrh. sé sannfærður um að þegar hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, verður hættur á þingi að manni frá Höfn í Hornafirði gangi vel í prófkjöri í hinu nýja, stóra kjördæmi. Ég er ekki viss um að hæstv. forsrh. sé sannfærður um að slíkur maður ætti mikla möguleika.

Ég vil líka spyrja um það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra með ráðherraskipanina, hvernig sú skipan er í dag hjá Sjálfstfl. Hvernig er hún í dag hjá flokki sem á fimm ráðherra? Hver er fyrsti ráðherra flokksins? Það er 1. þm. flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. (Forsrh.: Það er formaður flokksins.) Hver er annar ráðherra flokksins? Það var 2. þm. flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. (Gripið fram í.) Og hver var þriðji ráðherra flokksins? Það var 3. þm. flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Og svo hætti varaformaður flokksins að vera ráðherra og hver kom þá í staðinn? Það var 4. þm. flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Hvað með hið stóra Reykjaneskjördæmi, sem slagar nú nokkuð upp í Reykjavíkurkjördæmi? Hvað á Sjálfstfl. marga ráðherra í því kjördæmi, herra forseti?