Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:08:56 (1384)

1998-11-19 18:08:56# 123. lþ. 28.6 fundur 184. mál: #A miðlun upplýsinga og samráð við starfsmenn á Evrópska efnahagssvæðinu# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg sérstaklega fram að ég er mjög ánægð með það að ráðherrann ber þetta frv. fram og tel mjög mikilvægt að reglur um þessi réttindi séu skýrar og að það standi ekki á okkur að uppfylla lagaákvæði um rétt fólks sem ræður sig í framtíðinni hjá stórum fyrirtækjasamsteypum. Ég get ímyndað mér að þetta sé rétt hjá ráðherranum að Íslensk erfðagreining falli hugsanlega undir þetta og fleiri fyrirtæki sem eiga e.t.v. eftir að fóta sig á íslenskum markaði. Ég er því alveg sannfærð um að það er góður kostur að hafa sett þessi lög. Þó það væri ekki nema eitt fyrirtæki sem félli undir þessa löggjöf væri samt full ástæða til þess að löggjöfin væri til staðar vegna þess að það er um mjög marga starfsmenn að ræða og ekki síst í stórum fyrirtækjum er mjög mikilvægt að tryggja aðild starfsmanna að ákvörðunum og vera með virkt atvinnulýðræði.

Ég var að vona að ráðherrann hefði sett einhverja nefnd í gang til að skoða hvernig hægt væri að koma á virku atvinnulýðræði og að opna leið fyrir aðild starfsmanna að stjórnun fyrirtækja, ekki síst ákvörðunum. Það held ég að sé góður kostur. Ég heyri að ekkert slíkt er í gangi en minni á að jafnaðarmenn hafa flutt slíka tillögu og sett fram sem stefnu að auka atvinnulýðræði og reyna að finna leiðir til að tryggja aðild starfsmanna að stjórnun fyrirtækja en finnst það sem ég hef séð af þessu frv. góðs viti.