Lögheimili

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:11:09 (1385)

1998-11-19 18:11:09# 123. lþ. 28.7 fundur 185. mál: #A lögheimili# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á síðasta þingi ákvað Alþingi að hækka sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár. Þetta frv. ásamt með öðru sem hér er einnig á dagskrá er bein afleiðing af þeirri hækkun sjálfræðisaldursins. Lögheimilislögum þarf að breyta þar sem eðlilegt er að í þeim sé byggt á inntaki forsjár eins og hún er skilgreind í barnalögum. Samkvæmt lögheimilislögum á barn 15 ára og yngra að jafnaði sama lögheimili og foreldrar þess, búi það hjá þeim. Búi barnið hjá öðrum verður það ekki skráð með fasta búsetu þar nema með samþykki foreldra eða samkvæmt lögmæltri skipan. Með nýjum lögræðislögum hækkaði forsjáraldur barnalaga í 18 ár. Ef lögheimilislögunum væri ekki breytt vegna þessa yrði það í fyrsta sinn sem ósamræmi væri þarna á milli.

Til þess að halda þessu samræmi er þetta frv. lagt fram og ég legg til að að lokinni umræðunni verði það sent til athugunar í hv. félmn.