Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:33:29 (1397)

1998-11-19 18:33:29# 123. lþ. 28.9 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir síðasta ræðumanns og fleiri sem hér hafa talað um þetta mál. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, spurði hér um starf nefndarinnar sem lagði að grunn að þessu frv. hér og aðrar hugmyndir í nefndarstarfinu.

Önnur hugmynd sem þar kom fram og er nú ekki ný og ekki sérstaklega frumleg kemur fram í frv. sem útbýtt hefur verið hér í dag, um breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, og gengur út á að framlengja hlutabréfaafsláttinn í því formi og fari sem hann var í á síðasta ári.

Aðrar hugmyndir sem fram komu í nefndarstarfinu, sem þingmaðurinn gat um, eru til skoðunar, þar með talin hugmyndin um húsnæðissparnað. Allar aðrar hugmyndir en þessar tvær, hlutabréfin og þetta frv. sem hér er, taka lengri tíma og þurfa meiri undirbúning. Það var hægt að taka þessi tvö mál strax og setja inn í þingið í formi frumvarpa.

Að því er varðar einstaka þætti eins og námsmannasparnað og þess háttar er auðvitað vert að líta á slíkt. Hins vegar er reynslan annars staðar þegar um er að ræða sérstaka reikninga til ákveðinna markmiða eða skilgreindra þarfa, gjarnan sú að sá sparnaður fer úr einu formi yfir í annað. Fólk tekur þá peninga út úr banka og setur inn á slíka reikninga eða leysir út hlutabréf sín og setur á slíka reikninga o.s.frv.

Í frv. sem hér er mælt fyrir í dag er hins vegar talað um lífeyrissparnað sem hjá flestu fólki mun vera lagður til hliðar þangað til fólk verður sextugt, inn á sérgreinda lífeyrisreikninga í nafni viðkomandi manns. Sú upphæð mundi að sjálfsögðu erfast þegar fólk fellur frá, en er hugsuð sem viðbót við hinn almenna lífeyrissparnað til notkunar á efri árum. Þar er um að ræða raunverulegan viðbótarsparnað til langs tíma.