1998-11-30 15:07:45# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þessi vinnubrögð eru auðvitað fjarri öllu lagi. Það er ekki einasta að meiri hluti heilbrn. hafi gengið gegn tillögum í þá veru að afgreiða annars vegar frv. jafnaðarmanna og hins vegar þáltill. þingmanna óháðra út úr nefndinni heldur felldi meiri hluti nefndarinnar líka að fjalla um frv. og þáltill. jafnhliða frv. meiri hlutans, þ.e. hæstv. ráðherra.

Þetta eru náttúrlega algerlega fráleit vinnubrögð, virðulegi forseti. Það kom mjög skýrt og greinilega fram við 1. umr. þessara mála allra að tilgangur flutningsmanna frv. og þáltill. var einmitt sá að fleiri valkostir væru uppi við vinnslu og meðferð málsins í nefndinni og því er það með fádæmum að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki hafa þorað að fara í efnislega umræðu um þessa valkosti í málinu, vakosti sem hægt og bítandi hafa unnið mjög á í hinni almennu þjóðfélagsumræðu í þjóðfélaginu öllu.

Þetta vekur undrun, virðulegi forseti. Ég tek undir þær áskoranir hv. þm. Ögmundar Jónassonar á hendur forseta að hann beiti afli sínu til þess að koma skilaboðum til heilbrn. um að hún taki málið upp nú þegar og afgreiði þáltill. og frv. frá sér inn í þingið á nýjan leik.