1998-11-30 15:10:46# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er afskaplega stórt mál. Gagnagrunnsfrv. er umdeilt mál bæði á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Þess vegna er þýðingarmikið að skoða allar hliðar þess og hvernig unnt sé að skipa málum. Og þess vegna hafa þingmenn flutt tillögur og frumvörp um valkosti við þetta mál. Það er óþolandi að það skuli gerast enn einu sinni að þingmannafrumvörp eru sett til hliðar og engin afstaða liggur fyrir hjá nefndinni, í þessu tilfelli heilbr.- og trn., um þau þingmannafrumvörp sem eru valkostir í stöðunni.

Forseti bendir á að formaður og varaformaður heilbr.- og trn. eru erlendis. Það þýðir ekkert að draga formann eða varaformann inn í þessa umræðu vegna þess að svo vill til að formaðurinn er frá stjórnarandstöðunni og hefur gert sitt til þess að ná þessari vinnu í gang. Formaðurinn hefur leitt afskaplega faglega vinnu í heilbr.- og trn. en hann hefur ekki bolmagn til þess að ná fram afgreiðslu á þingmannafrumvörpum þegar meiri hluti heilbr.- og trn. leggst gegn því. Það er staðan á Alþingi. Ef meiri hluti heilbr.- og trn. leggst gegn afgreiðslu máls úr nefnd þá kemur það ekki út úr nefnd. Ef stjórnarmeirihlutinn á Alþingi leggst gegn afgreiðslu máls þá nær það ekki fram. Það er staðreyndin.

Herra forseti. Það er glapræði af stjórnarmeirihlutanum að ætla að freista þess að afgreiða gagnagrunnsfrv. í miklu ósætti bæði við fagstéttir og þjóðina. Það verður að nást sátt um þetta mál ef lög sem hér verða sett eiga að geta náð markmiði sínu.