1998-11-30 15:18:29# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þetta sem hæstv. forseti nefndi rétt áðan sem umræðan snýst um. Það er hinn lýðræðislegi réttur að mál fari til nefndar og komi hingað aftur til 2. umr. og síðan hinnar 3. Og það er nákvæmlega yfir því sem verið er að kvarta hér, þ.e. að tvö mikilvæg mál fást ekki hingað til 2. umr. og síðan hinnar 3. vegna þess að hinn meinti lýðræðislegi meiri hluti hefur lagst gegn því. Það er nákvæmlega sama hversu oft hv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna tönnlast á því að hér sé um eðlilegan, lýðræðislegan rétt að ræða. Hér er farið aftan að hlutunum.

Ég vakti athygli á því áðan að svo mikill var óttinn við þetta mál, kannski óttinn við það að missa hjörðina út og suður, að ná ekki að halda henni saman, að nefndin felldi það að fjalla um hin tvö málin, frv. og þáltill., samhliða frv. ráðherrans.

Ég vek á því athygli, virðulegi forseti, og rifja það upp að þessi þrjú mál komu á dagskrá á sama deginum og að frv. ríkisstjórnarinnar var gjörbreytt frá síðasta vori og umræðan frá þeim tíma hafði lítið gildi fyrir hið nýja frv. hæstv. heilbrrh. þannig að málin komu jafnný, ef menn vilja orða það svo, til þingsins í síðasta mánuði. Það voru því öll efni til þess, virðulegi forseti, og nægur tími, virðulegi forseti --- og sá tími er enn þá nægur --- til að klára það verk sem nefndinni var falið af hinu háa Alþingi þegar Alþingi samþykkti að vísa þessum þremur málum til umfjöllunar í heilbrn.

Ég spyr: Ætlar meiri hluti heilbrn. að hafa samþykkt Alþingis að engu þegar samþykkt var að fela nefndinni að fara yfir þessi mál? Ég bið um svör við þessu, virðulegi forseti. Um þetta snýst málið, nákvæmlega eins og virðulegi forseti sagði réttilega áðan.