Þingmannamál um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:25:15 (1414)

1998-11-30 15:25:15# 123. lþ. 29.94 fundur 125#B þingmannamál um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram í þessum orðaskiptum hvað felst í þeirri yfirlýsingu hv. formanns þingflokks sjálfstæðismanna, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, að málin sem hér er verið að gera að ...

(Forseti (GÁ): Hv. þm. ræðir fundarstjórn forseta.)

Ég tel nauðsynlegt, hæstv. forseti, að eftirfarandi upplýsingar komi fram og beini því til hæstv. forseta að hann leyfi mér að gera það.

Hv. þm. sagði að í heilbrn. yrði áfram tóm til að fjalla um annars vegar frv. jafnaðarmanna og hins vegar þáltill. frá þingflokki óháðra um dreifða gagnagrunna. Það er hægt að fjalla um þetta eftir að frv. ríkisstjórnarinnar hefur verið afgreitt á þinginu. Hvers konar rugl er þetta, með leyfi forseta?

Hér er verið að tala um frv. ríkisstjórnarinnar sem kveður á um miðlægan gagnagrunn sem á að veita sérleyfishafa einkarétt yfir. Hins vegar er um að ræða valkosti við þetta, valkost sem þingflokkur jafnaðarmanna eða þingmenn jafnaðarmanna hafa sett fram um annars konar útfærslu á miðlægum gagnagrunni og hins vegar tillögu sem fram kemur frá þingflokki óháðra um dreifða gagnagrunna. Ég hef bent á það, hæstv. forseti, að sú tillaga nýtur víðtæks stuðnings í vísindasamfélaginu. Og ég er að vekja athygli á því að meiri hluti Alþingis ætlar að reyna að koma í veg fyrir það að Alþingi fái að taka afstöðu til þessara valkosta allra.