Desemberuppbót ellilífeyrisþega

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:29:20 (1416)

1998-11-30 15:29:20# 123. lþ. 29.1 fundur 113#B desemberuppbót ellilífeyrisþega# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn skoði skattamál öll í víðtæku samhengi um þessar mundir og reyni að fara sér hægt og varlega í skattheimtunni allri. Það hefur ríkisstjórnin verið að leitast við að gera með því að lækka skatta samfellt, lækka skattprósentuna. Því miður lendum við nú í því eins og nýkunnar fréttir eru um að aðilar, til að mynda höfuðborgin sjálf, ræðst á fólk með því að taka þá skattalækkun burtu --- og þarna hlæja nú sumir. Þeir hlæja að því sumir hér í salnum. Ég hef gaman af því --- (Gripið fram í.) taka þá skattalækkun burtu sem launþegahreyfingin treysti á. Það væri gaman ef vélinni væri nú beint að þeim sem fara að hlæja að því þegar skattalækkun launþeganna er tekin burtu aftur. Það væri rétt að nafngreina þá sem hlæja mest að því þegar skattalækkun launþeganna er tekin burtu.

Auðvitað er það sjálfsagt og eðlilegt að menn hugi að skattalækkunum. Það stendur til núna um áramótin að skattafslátturinn hækki eins og gert var ráð fyrir samkvæmt samningum og það er sjálfsagt að við það allt saman sé staðið. Að öðru leyti er ekki fært í óundirbúnum fyrirspurnum að fara inn á einstaka þætti skattamála.