Fjármögnun heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:35:06 (1421)

1998-11-30 15:35:06# 123. lþ. 29.1 fundur 114#B fjármögnun heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að spyrja um skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég leyfi mér að gera það þrátt fyrir umvandanir hæstv. forsrh. áðan um svip á þingmönnum úti í sal. Ég veit ekki til þess að hann ráði yfir því hvernig menn eru á svipinn í þessu húsi.

Ég ætla samt sem áður að leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. sem gengur út á það að hann boðaði á ráðstefnu fyrir nokkrum dögum að það ætti að fara að leggja skatta á sjúklinga í stórauknum mæli. Samkvæmt frétt Stöðvar 2 sagði hæstv. fjmrh.:

,,Hjá því verður ekki komist að treysta í meira mæli á beina fjármögnun frá neytendum heilbrigðisþjónustunnar og einungis að hluta á fjármögnun í formi skattheimtu.``

Hann ætlast til þess að sjúklingar verði látnir borga fyrir heilbrigðisþjónustuna í stórauknum mæli. Sjúklingarnir eru skattstofninn sem íhaldið hefur fundið og er athyglisvert að hugsa um í framhaldi af orðaskiptum hæstv. forsrh. við þingmann áðan.

Í öðru lagi segir í fréttinni:

,,Þá talaði Geir um að einkafjármögnun ætti að skoða í auknum mæli.``

Í þriðja lagi sagði hann:

,,Og greiðslur til sjúkrastofnana eiga að byggjast á afköstum í auknum mæli.``

Það á með öðrum orðum að taka upp uppmælingu á heilbrigðisstofnunum til þess að tryggja þeim fjármuni til rekstrar.

Í fjórða lagi sagði hæstv. fjmrh.: ,,Þá er áhugavert að færa starfsemi sem er í samkeppni við einkarekstur frá sjúkrahúsum í sérstök fyrirtæki sem yrðu rekin á sömu forsendum og einkafyrirtæki.``

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? Ég trúi því ekki að þeir framsóknarmenn skrifi upp á stefnu af þessu tagi vegna þess að verið er að boða óvenjuómengaða hægri stefnu og það er sjaldgæft að vatnaskilin á milli hægri og vinstri sjáist eins glöggt í íslenskum stjórnmálum og sáust í viðtalinu við hæstv. fjmrh. og fréttinni af ummælum hæstv. fjmrh. Því spyr ég hann: Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig ætlar hann að knýja hana fram og er samstaða um hana með hinum stjórnarflokknum?