Yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:43:02 (1426)

1998-11-30 15:43:02# 123. lþ. 29.1 fundur 115#B yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í DV í dag segir af því að hæstv. forsrh. sé reiður vegna þess að ákveðnar tillögur í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar séu óskammfeilnar, eins og hann orðar það. Raunar endurtók reiði hans sig í þessum sama ræðustól fyrir örfáum mínútum. Auðvitað er um ákaflega sérkennileg afskipti hæstv. forsrh. af borgarmálefnum að ræða eins og þau birtast hinu háa Alþingi og í hinni almennu þjóðmálaumræðu.

Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. félmrh., sem hefur auðvitað málefni sveitarstjórna á sinni könnu, hvort honum finnist viðeigandi að hæstv. forsrh. fari fram með þessum hætti þegar um er að ræða tillögur lýðræðislega kjörins meiri hluta borgarinnar. Hvort honum finnist það eiga við að hæstv. forsrh. fari inn á málefnasvið hans á þennan hátt. Og í þriðja lagi, hvort hæstv. félmrh. og ráðherra sveitarstjórnarmála sé efnislega sammála þeirri einkunnagjöf sem hæstv. forsrh. hefur látið frá sér fara nú í dag og í fjölmiðlum í morgun. Er hann dús við hæstv. forsrh. í þessum efnum?