Yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:47:09 (1428)

1998-11-30 15:47:09# 123. lþ. 29.1 fundur 115#B yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sveitarstjórnamála svörin. Ég skildi hann á þann veg að hann og hæstv. fjmrh. væru sammála um nauðsyn þess að sveitarfélög reyndu að stemma stigu við þeirri skuldasöfnun sem átt hefur sér stað hjá tilteknum sveitarfélögum og stöðva hallarekstur þeirra. En hæstv. forsrh. virtist ekki vera inni í málum. Ég skildi hann þannig. Hann hafði ekki hlustað á þessar gagnmerku ræður eða þær tölur sem var að finna á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrir helgina. Var það rétt skilið að hæstv. forsrh. væri kannski ekki nægjanlega vel inni í málum sveitarfélaga til að geta gefið einkunnagjöf á þann veg sem hann hefur gert hér í dag og í fjölmiðlum í morgun? Ber einnig að skilja það svo að hæstv. fjmrh. viti betur en flokksbróðir hans, hæstv. forsrh.?