Afkoma sveitarfélaga

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:51:38 (1432)

1998-11-30 15:51:38# 123. lþ. 29.1 fundur 116#B afkoma sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef áhuga á að leggja fyrir hæstv. fjmrh. spurningar mjög hliðstæðs eðlis og þær sem bornar voru upp við hæstv. félmrh. áðan. Hæstv. fjmrh. er nýkominn af fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og þar lýsti hann, og reyndar hæstv. félmrh. einnig, yfir miklum áhyggjum sínum út af fjárhagsafkomu sveitarfélaganna, enda liggja fyrir upplýsingar um umtalsverðan hallarekstur sveitarfélaganna á undanförnum árum og yfirstandandi ári. Hæstv. fjmrh. ræddi þar einnig um nauðsyn þess að koma á samráði ríkisins og sveitarfélaganna í þessum efnum, þ.e. á fjármálasviðinu. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í hverju hann hugsi sér að þetta samráð sé fólgið. Er þar verið að bjóða upp á eða lýsa eftir samráði t.d. um beitingu tekjustofna? Er hæstv. fjmrh. þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ríki og sveitarfélög samstilli málin hvað varðar beitingu tekjustofna?

Eins og ljóst er hafa sveitarfélögin tekið við mörgum útgjaldafrekum verkefnum og þau fara nú með um 25% af opinberri þjónustu eða opinberum umsvifum í landinu. Kostir sem sveitarfélögin eiga eru því ekki margir og gamalkunnugir frá glímum t.d. við afgreiðslu fjárlaga. Er hæstv. fjmrh. þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að skila einhverju af þessum verkefnum til baka? Er hæstv. fjmrh. þeirrar skoðunar að þau eigi að skera niður þjónustuna eða telur hæstv. fjmrh. að þau eigi að auka tekjurnar? Það er í grófum dráttum þetta sem í boði er. Ég held, herra forseti, ekki síst með hliðsjón af þeim orðaskiptum sem þegar hafa orðið á þessum fundi, að ástæða sé til að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir hugmyndum sínum eins og þær snúa að sveitarfélögunum og afkomu þeirra.