Afkoma sveitarfélaga

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:53:45 (1433)

1998-11-30 15:53:45# 123. lþ. 29.1 fundur 116#B afkoma sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér er ljúft að útskýra hugmyndir mínar um þetta efni. Það hafa fleiri en hv. þm. tekið eftir, eins og hæstv. félmrh. vitnaði til, að ég bauð til sérstaks samstarfs um efnahagsmál einmitt vegna þess að sveitarfélögin í landinu sem ein stærð eru orðin mikið númer í þeim efnum því að þau ráðstafa nú u.þ.b. 25% af öllum opinberum útgjöldum. En kjarni málsins í þeirri tillögu sem ég flutti er sá að ríki og sveitarfélög leggi ekki stein í götu hvers annars. Að þau séu ekki að þvælast fyrir markmiðum hvers annars og að þau reyni að samræma sína stefnu, þannig að það sem einn aðilinn gerir gangi ekki þvert á það sem annar aðili er að gera.

En því miður hefur það gerst nú um helgina að í Reykjavík er boðuð ráðstöfun sem gengur þvert á þau markmið sem ríkisvaldið, reyndar í tengslum við aðila vinnumarkaðarins, hefur beitt sér fyrir að því er varðar skattalækkanir. Það eru atriði eins og þetta sem hugmynd mín gekk út á að koma í veg fyrir, að einn stór aðili á sveitarstjórnarsviðinu tilkynni um skattahækkanir á þennan hátt þegar ríkisvaldið hefur einmitt gengið fram fyrir skjöldu til að lækka skattana. Ég var að tala um það samráð að menn bregði ekki fæti hver fyrir annars áform í málum sem þessum.

Mér sýnist nú eftir þennan atburð, þótt hann virki eins og löðrungur beint á þessa tillögu sem ég var að flytja fyrir helgina, að hann sýni líka í hnotskurn nauðsyn þess að sveitarfélögin og ríkið tali saman um þessa hluti og reyni að samræma sig að því er varðar bæði tekjustofna, eins og hv. þm. spurði um, og aðra þætti sem hafa áhrif á efnahagsmálin og afkomu almennings í landinu. Menn verða stundum að hugsa pínulítið stærra en bara ofan í eigin aski og horfa upp fyrir asklokið sitt þegar kemur að því að taka mikilvægar ákvarðanir sem snerta efnahagsmálin í landinu.