Staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:01:26 (1438)

1998-11-30 16:01:26# 123. lþ. 29.1 fundur 117#B staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. um ástæður þess að svo fáar af samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa verið staðfestar hér á landi. Í síðustu viku var vakin athygli á því að Íslendingar hafa aðeins fullgilt tvær af þeim 26 samþykktum sem hafa verið gerðar innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1980. Við erum fullgildir aðilar að ILO. Við tökum þar virkan þátt í starfi en við höfum hins vegar ekki einu sinni fjallað um 16 af þessum samþykktum á réttum vettvangi.

Önnur Norðurlönd hafa fullgilt frá 6--16 þessara samþykkta og þótt svo að margar samþykktanna eigi ekki beinlínis við hér á landi er ljóst að hér er um að ræða algerlega óviðunandi niðurstöðu í okkar vinnubrögðum. Ég spyr hæstv. félmrh. hvernig standi á þessu sleifarlagi og hvort hann hyggist bæta úr þessu.

Hér hefur sú venja skapast að vinnuveitendur leggi blessun sína yfir samþykktirnar en það er ekki gert ráð fyrir því í hinu alþjóðlega skipulagi. Samþykktirnar hafa heldur ekki verið lagðar fyrir Alþingi og það er, herra forseti, skammarlegt og snýr að þinginu. Brýnt er að bæta úr þeim göllum.

Það að fullgilda samþykktir er í mörgum tilvikum stuðningsyfirlýsing við bág kjör og laka stöðu víðs vegar í heiminum. Þetta er ekkert einkamál okkar og hæstv. ráðherra. Ef við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi þá eigum við að gera það af reisn og fara að þeim leikreglum sem þar gilda.