Staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:03:22 (1439)

1998-11-30 16:03:22# 123. lþ. 29.1 fundur 117#B staðfesting samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um ástæður þess hve fáar ILO-samþykktir hafa verið fullgiltar á Íslandi. Nú er það ekki mitt að svara nema fyrir það kjörtímabil sem ég hef verið ráðherra, sem er að verða eitt kjörtímabil. Fyrir mína tíð hafa tvær samþykktir verið fullgiltar og fyrir þinglok í vor vænti ég þess að tvær til viðbótar verði samþykktar, þ.e. samþykkt 138 sem fjallar um barnavinnu. Undirbúningi undir þá fullgildingu lauk í fyrravetur með lagabreytingu sem fram fór á Alþingi og er ekkert að vanbúnaði að fullgilda samþykkt 138. Ég hef líka marglýst því yfir í þessum ræðustól að ég vilji að samþykkt nr. 156 verði fullgilt áður en þessu kjörtímabili lýkur.

Ég hef hins vegar farið fram á það við aðila vinnumarkaðarins að þeir reyndu að koma sér saman um þau atriði sem eru í ágreiningi. Og það er eitt atriði í ágreiningi í samþykkt 156 sem verður þá að leysast með ákvörðun Alþingis.

Ég tel að það séu mjög farsæl vinnubrögð að láta aðila vinnumarkaðarins ræða sín í milli og til er samráðsnefnd frá aðilum vinnumarkaðarins og félmrn. þar sem fjallað er ítarlega um þessar samþykktir. Sumar samþykktir ILO eiga ekki við hér og í allnokkrum tilfellum eru íslensk lög betri en þær samþykktir sem ILO hefur gert, þ.e. réttarstaða er betri hér en ILO-samþykktirnar krefjast.