Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:36:06 (1449)

1998-11-30 16:36:06# 123. lþ. 29.3 fundur 278. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. telst kannski ekki til stórtíðinda í tekjuskattslöggjöfinni eða í skattamálum almennt. Þó eru hér nokkur atriði sem út af fyrir sig er ástæða til að staldra aðeins við og vert er að nefna. Ég vil þar í fyrsta lagi nefna framlengingu á skattfrádrætti vegna hlutafjárkaupa sem ætlunin var að hyrfi út í áföngum á nokkurra ára tímabili og yrði, ef ég man rétt, að fullu horfinn um aldamótin eða á aldamótaárinu. Nú er lögð til, að vísu tímabundin, framlenging á tilteknum frádrætti, þ.e. til ársins 2002 ef ég man rétt, í stað þess að þetta yrði að fullu horfið á öðru ári héðan í frá. Þetta er sjálfsagt hugsað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem einhver viðleitni í sambandi við að auka sparnað eða viðhalda sparnaði og ég ætla ekki að mæla gegn því að einhver viðleitni af þessu tagi sé höfð uppi, þó að auðvitað sé ljóst að hlutafjárkaup eru bara eitt form af því tagi sem tekur fé úr umferð og ekki endilega við allra hæfi að leggja fyrir með þeim hætti og taka áhættu sem því er samfara o.s.frv. Ég tel þó skynsamlegt að ef slík hvatning er fyrir hendi á annað borð sé það gert að áskilnaði að menn eigi bréfin í alllangan tíma. Hér er einmitt lagt til að þetta verði bundið við að menn eigi bréfin í fimm ár ella falli skattfrádrátturinn niður. Gagnvart kennitölusöfnunum og öðrum slíkum hlutum sem maður sér í gangi þessa dagana sýnist mér skynsamlegt að ef um skattalegt hagræði er að ræða til að hvetja til þátttöku almennings í þessum efnum, þá sé það skilyrt með þessu móti og kæmi reyndar vel til álita að mínu mati að sambærilegum takmörkunum yrði beitt í víðara samhengi, t.d. þegar um er að ræða forkaupsrétt og menn eru bersýnilega að nýta sér hagstæð kjör, jafnvel niðursett verð á hlutafé í opinberum fyrirtækjum, þá sé það gert með einhverjum kvöðum af því tagi að það sé ekki helber sýndarmennska að almenningi eða starfsmönnum sé gefinn kostur á slíkum kjörum. Hversu mikil áhrif þetta hefur í ljósi þess að hér eru ekki háar upphæðir á ferð, skal ég ósagt látið um, en í öllu falli er ástæða til að ætla að neikvæðu áhrifin af því að þessir frádrættir féllu niður komi þá síður fram.

Í öðru lagi er hér á ferðinni breyting sem ég átta mig ekki í fljótu bragði á hvort skiptir miklu máli, þ.e. þau ákvæði sem varða samsköttun móður- og dótturfélaga. Það er fyrst og fremst eitt atriði í því sambandi sem ég vil nefna og spyrja um, eða sem ég tel að þurfi a.m.k. að skoða því ég veit svo sem ekki hvort ég hef beina spurningu í því sambandi, en það er ósköp einfaldlega þetta: Er rækilega frá því gengið að með þessum ákvæðum sé ekki verið að opna fyrir neinar smugur sem nýtist fyrirtækjum, gróðafyrirtækjum, til að ná sér í uppsafnað tap annarra aðila sem ella væru lokaðar? Ég tel að reglur um það hafi að mörgu leyti verið til skammar hér, þ.e. hversu lengi mönnum leiðst að kaupa sér töp úr óskyldum eða lítt skyldum rekstri og enn er það svo því miður að gróðafyrirtæki eru að gera upp með hundruð millj. kr. hagnað ár eftir ár án þess að borga nokkurn skapaðan hlut í sameiginlegan rekstur samfélagsins af því þau búa enn að gömlum uppsöfnuðum töpum eða reglum sem voru á sinni tíð svo rúmar að menn gátu nánast gert hvað sem er. Iðnfyrirtæki gátu keypt gjaldþrota útgáfustarfsemi af stjórnmálaflokkum o.s.frv. Ég átta mig ekki í fljótu bragði á því, en kannski eru reglurnar um skilgreiningu á dótturfyrirtækjum í þessu sambandi algjörlega heldar hvað það varðar að gróðafyrirtæki geti ekki náð sér í töp í gegnum það að samskatta eitthvað sem þau skilgreina sem dótturfyrirtæki. Fyrir mitt leyti a.m.k. vil ég að rækilega sé frá því gengið að hér sé ekki enn verið að opna smugur sem þefvísir menn komi til með að þefa uppi og halda áfram að sleppa við að greiða eðlilega skatta af hagnaði sínum til samfélagsins. Ég minni í því sambandi á það örlæti sem ríkti hér fyrir einu eða tveimur árum síðan þegar menn framlengdu heimildir til frádráttar á ævagömlum töpum frá því á síðasta áratug og þess sér nú stað m.a. í því að fyrirtæki eru að nota sér töp sem ella hefðu verið felld niður, felld á tíma, og losna við að borga skatta. Það á m.a. við um nokkur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Um þetta, herra forseti, spyr ég eða lýsi eftir að verði rækilega skoðað.

Síðan er hér eitt atriði enn sem kannski er smátt í sniðum. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra og frv. rétt er nánast ekki um neina efnisbreytingu að ræða, þ.e. um reglur um útgáfu jöfnunarhlutabréfa, að skattaleg ákvæði um það atriði verði einfaldlega felld niður og útgáfa jöfnunarhlutabréfa verði alltaf skattfrjáls. Þetta tengist líka því sem gert var í fyrra, þ.e. að breyta skattalegri meðferð arðs á þann hátt sem ég tel að hafi verið mistök. Ég tel að í því hafi verið fólgin afturför að leyfa ekki frekar frádrátt vegna útgreiðslna arðs úr fyrirtækjum en heimila í staðinn að samsteypurnar megi færa arðinn til innan sinna vébanda án þess að bera af því nokkurn tekjuskatt. Ég er alveg sannfærður um að þetta var misráðið. Þetta kemur niður á litlu fyrirtækjunum og einyrkjum í atvinnurekstri eða þar sem hluthafar eru fáir en hagnast stóru samsteypunum. Ef menn eru að breyta þessum ákvæðum á annað borð, og það er kannski út frá þeirri hugsun að ekki sé lengur um neinn frádráttarstofn að ræða þar sem er nafnverð hlutabréfa, þá skipti ekki máli lengur í skattalegu tilliti að halda utan um heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa. En mér fyndist að þarna ætti að skoða grundvallarregluna sjálfa og ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á það að þessi breyting hafi verið til bóta eða til framfara.

Síðan er það spurningin um sjálfa skattlagninguna þegar kemur að fjármagnstekjuskattinum sem óhjákvæmilega vaknar upp og þessa óveru sem við lýði er sem á að heita fjármagnstekjuskattur í landinu. Það er aðeins komið inn á það hér, eða það ákvæði sem varðar reglur um vaxtareikninga af bundnum reikningum tengist t.d. þessu, að með því að reikningarnir séu bundnir í þrjú ár eða lengur koma vaxtatekjur af þeim ekki til skattlagningar fyrr en í lok tímans og það kann vel að vera eðlileg regla. En mergurinn málsins er sá að fjármagnstekjuskatturinn er hreinasta hörmung, er óvera og ætti auðvitað að endurskoðast með það að markmiði að um raunskattlagningu á eiginlegum fjármagnstekjum væri að ræða og eðlilega skattlagningu eins og þegar aðrar tekjur eru skattlagðar. Að ógleymdri svo stóru jólagjöfinni sem stórhlutafjáreigendur fengu þegar skattur af söluhagnaði hlutafjár var færður niður í 10% sem var auðvitað stærsta gjöfin sem hér hefur verið gefin í háa herrans tíð og verður þeim mun stærri sem sterkríkir hlutafjáreigendur verða fleiri í landinu.

[16:45]

Þessa sér m.a. stað í því að nú heyrir til undantekninga að arður sé tekinn út úr fyrirtækjum öðruvísi en að þau séu fyrst sameinuð öðrum og menn taki eignirnar út í formi hlutafjár sem síðan er selt og skattlagningin þar með komin niður í 10%. Þetta eru auðvitað stóru málin, herra forseti, sem tengjast öll því að ef farið er yfir það hvað fyrirtækin eða atvinnulífið annars vegar og launamenn hins vegar hafa verið að skila til samneyslunnar á undanförnum árum kemur sú alvarlega staðreynd í ljós að vöxtur tekna hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga er nær allur til kominn vegna skattlagningar á einstaklinga. Í góðærinu sjálfu, innan gæsalappa, eru fyrirtækin, gróðafyrirtækin í landinu nánast ekki að skila neinum viðbótartekjuauka í ríkissjóð. Það er t.d. mikið umhugsunarefni hvað tekjuskattur lögaðila hefur hækkað lítið milli ára, borið saman við það hversu geysilegur tekjuauki hefur orðið annars vegar af veltusköttunum, sem kemur ríkissjóði að mestu leyti til góða. Þeir á þeim bæ mættu hafa í huga þegar þeir eru að skamma sveitarfélögin að auðvitað kemur það fyrirkomulag betur út fyrir ríkissjóð en sveitarfélögin. Þó að sveitarfélögin séu með hlutdeild af útsvari eða tekjuskattsstofninum og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga njóti einnig góðs af aukinni veltu er það samt þannig að hjá ríkinu mælist þetta á öllum vígstöðvum og ekki síst í vörugjöldunum og auknum innflutningi. Að mínu mati þyrfti að endurskoða þessi skattalegu samskipti ofan í kjölinn.

Reyndar má koma fram að við höfum beðið fjmrn. í efh.- og viðskn. um úttekt á þessum tekjusamskiptum ríkis og sveitarfélaga eins og þau hafa þróast núna síðustu missirin, einnig með tilliti til verkefnatilfærslunnar yfir á sveitarfélögin. En ég tel, herra forseti, stórkostlegt alvörumál hve litlu fyrirtækin og gróðafyrirtækin eru að skila í miðju góðærinu. Þar koma til ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á undanförnum árum og flestar ef ekki allar hafa hlíft fyrirtækjunum á sama tíma og skattbyrðin hefur þyngst á hinum almenna launamanni eða þyngdist gífurlega á ákveðnu árabili á hinum almenna launamanni.

Herra forseti. Mér er ljóst að þetta voru að hluta til almennar hugleiðingar um skattamál en ekki bara þröngt talað út frá efni þessa frv. en það er ekki verra tækifæri eða tilefni en hvað annað þegar við ræðum þetta frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem er aðalfrv. ríkisstjórnarinnar á því sviði nú á þessu haustmissiri.