Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:45:17 (1457)

1998-11-30 17:45:17# 123. lþ. 29.5 fundur 219. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Í því þskj. sem fylgir þessu máli, frv. til laga um breytingu á tekjuskattslögum, eru margar gagnlegar upplýsingar um stöðu og hagi einstæðra foreldra. Ég tel að hér hafi margt forvitnilegt verið dregið saman í grg. með þessu máli, athyglisverðar staðreyndir ýmsar sem þó hafa að sjálfsögðu legið fyrir.

En hugmyndin sem frv. snýst um er reyndar ekki ný. Ég minnist þess að María Ingvadóttir, sem þá var varaþingmaður fyrir Sjálfstfl., lagði hér fram þingmál fyrir nokkrum árum um þetta efni, að foreldrar eða foreldri gæti hagnýtt ónýttan persónuafslátt unglinga. Þetta er sem sagt ekki ný hugmynd en henni hefur ekki verið hrint í framkvæmd vegna þess að hún er dýr og það er margt sem kemur til greina ef menn hafa einhverja peninga umleikis og geta kostað til í sambandi við skattkerfið. Nýlega var sú leið farin að lækka skatta. Tekin var ákvörðun um að verja heilmiklum fjármunum í að lækka hinn almenna tekjuskatt og á það að koma til framkvæmda um áramótin þótt að vísu sé nú annar aðili hér í nágrenninu að spilla fyrir því að hluta til.

Það liggja líka ýmsar aðrar hugmyndir fyrir um útgjöld á þessu sviði eins og að hækka 80% mörkin upp í 100%, hækka skattfrelsismörkin almennt eða lækka skatthlutfallið enn frekar. Það væri margt hægt að gera ef fjármagnið væri fyrir hendi. Ég tel að þetta sé mjög dýr tillaga. Ég held að hún kosti meira en hv. þm. gaf í skyn þótt það liggi nú ekki svo ljóst fyrir kannski. Ég tel þess vegna ekki að hún sé raunhæf, svo ég tali hreint út um það. Ef okkur tekst að skjóta styrkari stoðum undir efnahags- og atvinnulífið hér og búa þannig um hnútana að ríkissjóður verði aflögufær á næstu árum verður eitt og annað hægt að gera í skattamálum. Þá er þetta ein af þeim hugmyndum sem liggja fyrir þegar þar að kemur.