Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:50:24 (1459)

1998-11-30 17:50:24# 123. lþ. 29.5 fundur 219. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Eflaust veldur þetta þingmanninum vonbrigðum en ég tel enga ástæðu til annars en segja hreint út það sem ég tel. Ég tel ekki að þessi tillaga sé raunhæf eins og sakir standa. En ég sagði líka að hún kemur til skoðunar ásamt öðrum hugmyndum ef svigrúm skapast á næstu árum.

Ástæða er til að gera athugasemdir við eitt og annað í máli þingmannsins. Veit hún nákvæmlega hverjir keyptu Fjárfestingarbankann? Getur ekki vel verið að einhverjir einstæðir foreldrar eða tekjulágt fólk hafi gert það, námsmenn og aðrir? Mér býður í grun að ef þetta yrði kannað til hlítar þá hafi margur getað séð sér leik á borði sem á annað borð vill taka þátt í að fjárfesta á þennan hátt. (Gripið fram í.) Hins vegar að því er varðar þessa 100 milljarða sem þingmaðurinn hefur verið að tala um, bæði núna og fyrr í dag, þá kannast ég ekki við að ríkisstjórnin hafi haft einhverja 100 milljarða til að deila út til ákveðinna þjóðfélagshópa. Þetta bara gerist ekki þannig. Það er ekki þannig að menn geti bara staðið í biðröð og fengið skerf af einhverjum 100 milljörðum. Ég þekki það ekki. Og ég er alveg viss um að það var heldur ekki þannig í tíð síðustu ríkisstjórnar að menn úthlutuðu með þeim hætti.

Það var talað um forgangsröð. Vissulega eru ýmsir hópar í þjóðfélaginu ekki of sælir af sínu hlutskipti. Ég efast ekki um að víða er þröngt í búi hjá einstæðum foreldrum. Það er líka víða þröngt í búi hjá öryrkjum og eldri borgurum. Það þarf að taka tillit til alls þessa. Ég tel að ef hv. þm. yrði beðinn um að segja hvort hún vildi frekar gera eitthvað fyrir öryrkja eða aldraða eða þennan hóp, þá kynni hún að lenda í vandræðum ef hún hefði ákveðna upphæð til ráðstöfunar.

Ég tel að þessi tillaga sé skoðunar virði eins og fjöldamargar aðrar tillögur sem lúta að breytingum á skattkerfinu. Ég tel hins vegar hvorki að hún sé raunhæf við þær aðstæður sem nú eru uppi né að hægt sé að fjármagna hana. Ég andmæli reyndar því sem þingmaðurinn sagði um fjármagnstekjuskatt. Ég skal ekki endurtaka það sem ég hef áður sagt um það efni. Þar fer hún vill vegar.

Málið er sem sagt svona: Ég tel að ekki sé grundvöllur fyrir því að gera ráð fyrir því að svona tillaga geti náð fram að ganga á næstunni en það má skoða það í framhaldinu þegar ljóst er hvort hér verður áfram fylgt ábyrgri efnahagsstefnu sem skapar svigrúm í ríkisfjármálum eða ekki. Ef hugmyndir þingmannsins og hennar samherja um ríkisfjármál ná hér fram að ganga á næstu árum er hvorki líklegt að hægt verði að fjármagna þetta né aðrar umbætur í skattamálum.