Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 17:53:13 (1460)

1998-11-30 17:53:13# 123. lþ. 29.0 fundur RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þegar búið er að ræða stóru málin sem fjmrh. flutti í dag, m.a. um það hvernig skattameðferð skuli vera af vöxtum, verðbótum og ávöxtunarsparnaði og hvenær eða hvort jöfnunarhlutabréf teljast til arðs, þá kemur lítið mál á dagskrá, eins og oftast aftarlega á dagskránni og fáir eru viðstaddir. Ég verð þó að taka fram að mér líkar það að fjmrh. skuli sjá sér fært að vera viðstaddur umræðuna þrátt fyrir það reyndar að hann sparki svolítið frá sér í umræðunni. Það kemur mér á óvart. Það er athyglisvert að hlusta á viðbrögð fjmrh., að upplýsingarnar í ræðu framsögumanns séu athyglisverðar og áhugavert væri að skoða þær ef peningar væru til. Við þrjú sem reynumst vera að taka þátt í þessari umræðu hér í lok dagskrár vitum að til eru peningar fyrir því sem ríkisstjórn telur mikilvægt. Við vitum að skattalögum er breytt og að hagrætt er eftir því hver eru forgangsmál viðkomandi ríkisstjórnar. Við höfum rætt hér um skattalagabreytingar. Framsögumaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir nefndi fjármagnstekjuskattinn. Okkur greindi á um það hvernig honum var breytt. Okkur greindi á um það að lækka skatt af arði úr yfir 40% og niður í 10%. Okkur greindi á um það og það hefur gífurleg áhrif á það fjármagn sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur til umráða. Það að létta sköttum af arði tekur til upphæða upp á nokkur hundruð milljónir og við vitum þetta. Við þurfum ekkert að rífast um það. Við vitum að þannig er það.

Mér finnst líka frekar slæmt að fjmrh. sem ég met mikils skuli falla í sömu gryfju og forsrh. og fara að atyrða Reykjavíkurborg vegna breytinga á útsvarsprósentu. Mér finnst að sú umræða eigi í raun ekki heima hér. Sú umræða hefði getað átt heima undir skattafrumvörpunum sem fjmrh. var með fyrr í dag og ég sá eiginlega ekki ástæðu til þess þá að fara upp og gera athugasemdir við málflutning hans.

Það hefur komið í ljós, herra forseti, að í skýrslu sveitarfélaganna sem lögð var fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga hafa verið færð fyrir því gild rök að á stjórnartíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafa miklir tilflutningar verið á fjármagni, eða réttara sagt þá hafa tekjur sveitarfélaganna verið skertar um sem nemur nærri því 15 milljörðum króna á þessu tímabili. Hvernig og hvers vegna? Jú, vegna einhliða ákvarðana ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, ríkisstjórnar sem ég og framsögumaður áttum hlut að þótt við reyndar ættum aldrei nokkurn tíma á þessum fjórum árum fjármálaráðherrann í ríkisstjórn og greindi eflaust á um ýmis útfærsluatriði gagnvart sveitarfélögunum. En ég ætla ekki að ræða það. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa orðið af umtalsverðum tekjum á sama tíma og við höfum flutt til þeirra verkefni, ætlað þeim mjög mikilvæg verkefni á sviði velferðarmála, án þess að hafa fært þeim tekjur. Við höfum skert tekjur þeirra. Þetta eru staðreyndir.

Reykjavíkurborg er núna að hækka útsvarið hjá sér upp í það sem Kópavogur hefur haft á öllum stjórnartíma Sjálfstfl. --- Sjálfstfl. sem komst til valda fyrir átta árum út á það að tala um skuldasöfnun þáverandi meiri hluta sem er bara brot og krækiber í --- ég ætla ekki að ljúka þeirri setningu --- miðað við þá skuldasöfnun sem Sjálfstfl. í því ágæta sveitarfélagi hefur safnað á liðnum átta árum við framkvæmdir.

Þetta er nú það sem mér finnst um viðbrögð fjmrh. og ég er hissa. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um kjör og við erum að tala um rétt. Við erum að tala um kjör og réttindi þess þjóðfélagshóps sem býr við skertust kjör í okkar samfélagi. Auðvitað finnast einstæðir foreldrar, með miklar tekjur. Auðvitað finnast þeir. Auðvitað getur fundist t.d. einstæður fjármálastjóri, eðlilega. En langstærsti hópur einstæðra foreldra býr við bág kjör. Það er svo einfalt.

Jóhanna Sigurðardóttir, frsm. þessa máls, nefndi að fram hefði komið í skýrslu landlæknis að marktækur munur er á heilsu barna eftir því hverjar tekjur foreldranna væru. Þetta er athyglisvert og þetta er mjög alvarlegt. Þetta er áhyggjuefni og við ættum öll, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að kalla eftir því að fá frekari úttekt á þessu máli vegna þess að það er til skammar hversu fjölskyldustefnan sem við höfum verið að reyna að framkvæma á liðnum árum er veik og í raun og veru hvað þeir hlutir eru margir sem ættu að kalla á athygli okkar en gera það ekki.

[18:00]

Það er líka umhugsunarefni hvaða upplýsingar komu í ljós í haust þegar okkur var birt skýrsla um fátækt. Sú skýrsla leiddi í ljós að 7,8% bjuggu við fátækt árið 1907 og okkur finnst það ekkert skrýtið vegna þess að við þekkjum þjóðfélagsgerð þess tíma. En þegar okkur er sagt að 7,3% séu fátæk í Reykjavík í dag, í lok aldarinnar í þessu velferðarþjóðfélagi, þá hrökkvum við í kút, sérstaklega vegna þess að skýrslan sem ég vísa til sýnir úttekt á fátækt frá fleiri en einum sjónarhóli. Ekki þetta afstæða hlutfall þar sem tekjur eru miðaðar við meðaltekjur og fátækt reiknuð út frá því. Nei, heldur líka út frá kvarða sem miðaður er við útreikninga félagsmálastofnana, miðaður við hlutfall þeirra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð um margra ára skeið og á ólíkum skeiðum á þessari öld. Þetta er alvarlegt og við ættum að hrökkva í kút.

Ef við skoðum eignir og skuldir --- það er talað um að skuldir heimilanna hafi aukist svo og svo mikið á ákveðnu árabili og þær aukast stöðugt --- þá sjáum við að hjón sem eru með engan eða neikvæðan eignarskattsstofn eru 10 þúsund, 10 þúsund af 55 þúsund hjónum. Um 18% skulda meira en þeir eiga. Þegar við svo skoðum einstæða foreldra þá kunna að finnast efnaðir einstæðir foreldrar innan þess hóps, eins og fjmrh. sagði. En þegar við skoðum einstæða foreldra í slíkri skýrslu þá kemur í ljós að fjöldi þeirra sem eru með núll eða neikvæðan eignarskattsstofn er 4.201 af 7.856. Þessar tölur eru svo ólíkar hjá hjónunum og hjá einstæðu foreldrunum að þær segja eiginlega allt sem þarf. Þetta reynast líka vera nærri 54% af heildinni. Þetta eru rosalegar tölur, herra forseti. Þetta eru rosalegar tölur og þær segja okkur að miklir gallar eru á velferðarkerfi okkar og við vitum að mjög erfitt er fyrir marga að ná endum saman. Það er erfitt fyrir marga foreldra að ná endum saman og vinnudagur foreldra ungra barna er gífurlega langur. Það hefur komið fram í skýrslum og við vitum það. Samt er það þannig með fjölskyldur að ef einn vinnur fyrir fjölskyldunni þá getur hann notað skattkort og persónuafslátt maka síns. Og þegar um þannig heimilishald er að ræða þá er alveg ljóst að makinn er heima og sér um umönnunina, um börnin og heimilið. Það þýðir að langur vinnudagur annars foreldrisins getur verið erfiður. En gagnvart börnunum er annað foreldranna heima og sér um umönnun, uppeldi, veganestið og allt það sem þarf að vera í lagi til þess að ungviðið vaxi upp, til þess að æskan fái rétt skilaboð í uppvextinum og börnin geti orðið öflugir og sterkir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi.

Þegar einn framfærandi er og erfitt er að ná saman endum í útgjöldum heimilisins þá er þessi eini framfærandi fyrirvinnan og öll umönnun verður að eiga sér stað að vinnudegi loknum. Þess vegna skiptir svo miklu máli, herra forseti, að fá að nýta óráðstafaðan persónuafslátt þegar um það er að ræða að unglingar á heimilinu eiga skattkort og ónýttan persónuafslátt.

Það eru fleiri þættir sem ættu að vera í lagi hjá okkur en eru ekki í lagi, ekki af því að mörg okkar hafi ekki viljað það og jafnvel setið á pólitískum valdastóli til þess að reyna að ná því fram heldur hefur ekki náðst samstaða um það. Eitt af því eru húsaleigubæturnar. Í skýrslu sem var lögð fram 1995 kom fram að 1.400 einstæðir foreldrar hefðu fengið húsaleigubætur. Af þeim eru 97% konur og aðeins 3% karlar. Einstaklingar eru stærsti hópurinn sem fær húsaleigubætur og næststærsti hópurinn eru einstæðir foreldrar.

Ef maður skoðar hvað það skiptir miklu máli að fá húsaleigubætur þá eru þær um 10.295 kr. af meðalleigunni sem 1995, nota bene, var liðlega 34 þús. kr., en þá hefur verið reiknaður skattur af húsaleigubótunum. En það er ekki reiknaður skattur af vaxtabótum. Félagsmálastofnanir, félagsráðgjafar og aðrir eru alltaf að koma því á framfæri að misræmi sé í því að húsaleigubætur eru skattlagðar en vaxtabætur ekki. Í skýrslunni sem var lögð fram 1995 kom fram að þetta væri brot á jafnræðis- og grundvallarrétti skattalaga. Það er þetta sem öllum finnst vera ósanngjarnt vegna þess að húsaleigubætur bætast við tekjuskattsstofninn eins og fjárhagsaðstoðin, á meðan vaxtabæturnar skerða hvorki barnabætur né námslán af því þær leggjast ekki við stofninn.

Húsaleigubætur skerða barnabætur og húsaleigubætur skerða námslán. Og það eru þessir hlutir, herra forseti, sem samanlagt gera það að verkum að hópur sem þarf á mikilli samfélagshjálp að halda fær hana ekki. Við erum tilbúin að greiða 4 milljarða í vaxtabætur. Húsaleigubæturnar eru eitthvað um 400 millj. Þær mundu hækka, eins og hér hefur komið fram, ef þær væru ekki skattlagðar. En þetta er ekki há upphæð. Þetta er um tíundi hluti af því sem við erum tilbúin að greiða í vaxtabætur.

En við erum ekki að ræða húsaleigubætur hér. Við erum að ræða það að fá að nýta persónuafslátt barna þegar einstæðir foreldrar eiga í hlut. Hvers vegna er ég þá að tala um húsaleigubætur? Jú, vegna þess að svo margir hlutir snúa að kjörum einstæðra foreldra og skerða kjör þeirra á meðan við ættum að vera að lagfæra þau.

Herra forseti. Í fyrravetur var nokkrum lögum breytt til að reyna að lagfæra það sem hefði verið hægt að taka á með lögum um greiðsluaðlögun. Ein lagabreytingin var sú að heimila Innheimtustofnun sveitarfélaga að fella niður meðlagsskuldir að hluta eða öllu leyti við tilteknar aðstæður. Ég bar fram fyrirspurn í lok vetrar um það hversu margir hefðu nýtt sér þessa heimild. Þá kom í ljós að 560 einstaklingar leituðu eftir því að fá meðlagsskuldir niðurfelldar og 355 fengu umsókn sína samþykkta. 355 fengu samþykkta beiðni um að fella niður meðlagsskuldir. Og þegar greint er frá ástæðu samþykktar þá er í langflestum tilfellum um að ræða lágar tekjur. Því getum við hugsað sem svo: Afskaplega er það réttlátt að sá sem skuldar meðlag vegna þess að hann á að inna af hendi ákveðinn þátt uppeldismála barna sinna, fái felldar niður meðlagsskuldir sökum lágra tekna, skertrar starfsorku, barnamergðar eða mikillar greiðslubyrði. En þá spyr ég: Hvað með þann sem er með barnið á framfæri? Hvað með þann sem kaupir eða leigir íbúð og sér um framfærslu barnsins ef hann nær ekki endum saman, þ.e. sá sem skuldar allt að 54% meira en hann á? Hvað getum við gert til að rétta hlut hans? Mér sýnist að það sé alveg sama hvaða tillögur við komum með til úrbóta, þeim er alltaf hafnað.

Það er þetta, herra forseti, sem er alvarlegt og umhugsunarefni. Ákveðinn hópur þarf á samfélagsaðgerðum að halda og þegar að því kemur að skoða það þá er svarið þetta: ,,Það væri ýmislegt hægt að gera ef til væru peningar.``